Galeiða

Frönsk Galeiða - málverk eftir Abraham Willaerts, frá 17. öld

Galeiða var grunnskreitt ein-, tví eða þrímastrað kaup- eða herskip. Þau voru knúin latínseglum og flóknu árakerfi með allt að 70 árum á hvort borð. Ræðarar voru sjaldan refsifangar fyrr en á 16. öld, fyrir þann tíma er talið að flestar galeiður hafi verið mannaðar launuðum ræðurum. Galeiður voru með sérstaka vígtrjónu til að brjóta árabúnað og skipsboli óvinaskipa.

Galeiður voru algengar við Miðjarðarhafið frá 3. árþúsundi f.Kr. og allt fram á 18. öld. Það voru Grikkir og Föníkumenn sem smíðuðu fyrstu þekktu skipin.

Sjálft orðið er gamalt tökuorð í norrænu málunum úr þýsku, þaðan sem það er komið um latínu úr grísku, þar sem það var í öndverðu haft yfir vissa tegund af fiski en síðan voru skipin nefnd eftir fiskinum sökum einhverra líkinda.