Siðaskiptin á Íslandi

Saga Íslands

Eftir tímabilum

Miðaldir á Íslandi
Nýöld á Íslandi
Nútíminn á Íslandi

Eftir umfjöllunarefni

Siðaskiptin á Íslandi voru trúskipti á Íslandi, s.k. síðbót, sem urðu um miðja 16. öld og eru gjarnan miðuð við aftöku Jóns Arasonar biskups á Hólum haustið 1550, en hann var tekinn af lífi ásamt sonum sínum í Skálholti. Siðbreytingin hófst þó töluvert fyrir líflát Jóns, en aftakan markaði þáttaskil vegna þess að biskupinn hafði verið helsti andstæðingur hennar á Íslandi og þegar hann var úr sögunni varð miklu auðveldara að koma breytingum í kring.

Við siðaskiptin fluttust eignir kirkjunnar í hendur Danakonungs sem tók við stöðu æðsta manns innan hennar í stað páfa, ítök Dana á Íslandi jukust og löggjöf varð strangari, ekki síst í siðferðismálum.

Lútherskan berst til landsins

Titilblað Nýja testamentis Odds.

Kristján konungur 3. innleiddi mótmælendatrú í Danmörku 30. október 1536 og kom einnig á siðbreytingu í Noregi og Færeyjum, en ekki verður séð að hann hafi gert neitt til að afla lútherskunni brautargengis á Íslandi næstu árin. Áhrif Lúthers voru þó þegar farin að berast til landsins og Þjóðverjar,sem stunduðu veiðar og verslun hér við land, eru sagðir hafa reist lútherska kirkju í Hafnarfirði þegar árið 1533.

Ögmundur Pálsson biskup í Skálholti, sem var orðinn aldraður, hafði í þjónustu sinni nokkra unga menn sem menntaðir voru erlendis og höfðu kynnst mótmælendahreyfingunni þar og hrifist af henni þótt þeir flíkuðu ekki skoðunum sínum þegar biskup var nærstaddur.

Einn þessara ungu manna var Oddur Gottskálksson, sonur Gottskálks Nikulássonar Hólabiskups. Hann kom heim frá námi í Þýskalandi 1535, þá um tvítugt, og hófst fljótt handa við að þýða Nýja testamentið á íslensku og segir sagan að hann hafi oft verið við iðju sína úti í fjósi í Skálholti. Nýja testamenti Odds var prentað í Hróarskeldu 1540 og er það elsta varðveitta prentaða verkið á íslensku.

Annar ungur menntamaður sem hafði kynnst lútherskunni í Þýskalandi var Gissur Einarsson. Árið 1539 valdi Ögmundur hann sem eftirmann sinn og var hann vígður biskup að Ögmundi lifandi. Gamli biskupinn sá brátt eftir vali sínu, þegar skoðanir Gissurar komu berlega í ljós, en hann var orðinn hrumur og gat lítið að gert, þótt hann væri enn biskup að nafninu til með Gissuri.

Vorið 1541 komu svo danskir hermenn undir stjórn Christoffer Huitfeldt til landsins, handtóku Ögmund og fluttu hann með sér út til Danmerkur en hann dó á leiðinni. Gissur hafði þá frjálsar hendur við að koma hinum nýja sið á en varð þó minna ágengt en hann hefði viljað því ekki voru allir sáttir við siðbreytinguna og Hólabiskupsdæmi var enn rammkaþólskt.

Jón Arason og fjörbrot kaþólskunnar

Minnisvarði um Jón Arason á Hólum.

Danakonungur og fulltrúar hans aðhöfðust ekkert gegn Jóni Arasyni og var Ísland því skipt milli mótmælenda og kaþólskra næstu árin. Það var ekki fyrr en eftir dauða Gissurar 1548, þegar Jón Arason, síðasti kaþólski biskupinn á Norðurlöndum, fór á stúfana og reyndi að leggja Ísland allt undir sig og koma á kaþólsku að nýju sem skarst í odda. Jón reið til Skálholts til að hertaka biskupssetrið og láta kjósa nýjan biskup. En heimamenn voru við öllu búnir og eftir fimm daga umsátur gafst Jón upp á þófinu og hélt burt.

Jón lét svo kjósa Sigvarð Halldórsson ábóta í Þykkvabæ sem biskupsefni og sendi hann út til að fá vígslu, sem hann fékk vitaskuld ekki; Sigvarður lést ytra 1550 og er sagt að hann hafi þá verið búinn að taka lútherstrú. Marteinn Einarsson, biskupsefni mótmælenda var aftur á móti vígður sem eftirmaður Gissurar.

Marteinn kom heim 1549 en þá sendi Jón syni sína, Ara og Björn, að handtaka hann og færðu þeir hann til Hóla þar sem hann var í varðhaldi næsta árið. Vorið 1550 fór Jón í Skálholt, lét grafa lík Gissurar biskups upp og dysja hann utangarðs sem villutrúarmann.

Um sumarið reið Jón til alþingis og fékk þar samþykkt að Íslendingar skyldu taka upp kaþólsku að nýju. Hann og synir hans fóru líka um, handtóku marga helstu forystumenn lútherskra, þvinguðu þá til að taka aftur upp kaþólskan sið eða hröktu þá úr landi. Jón sagði þá að hann hefði nú undir sér allt Ísland nema hálfan annan kotungsson - og átti þá við Gleraugna-Pétur Einarsson, bróður Marteins biskups, og Daða Guðmundsson í Snóksdal, mág Marteins.

Um haustið riðu þeir feðgar vestur í Dali og hugðust ná Daða í Snóksdal á sitt vald, annaðhvort með vopnavaldi eða samningum. Þeir settust upp á Sauðafelli og biðu átekta í nokkra daga en á meðan safnaði Daði liði og yfirbugaði þá eftir stutt átök. Þeir voru fluttir í Skálholt og hálshöggnir þar 7. nóvember 1550. Eru siðaskiptin oftast miðuð við þann dag þótt þau hafi orðið í Skálholtsbiskupsdæmi átta árum fyrr.

Þjóðfélagsbreytingar

Við siðbreytingu fluttust allar eigur kirkjunnar í hendur Danakonungs og ítök og áhrif Dana jukust til muna hér á landi, ekki síst í verslunarmálum, og lauk þeirri þróun með tilkomu einokunarverslunarinnar 1602. Margt annað breyttist við siðaskiptin. Löggjöf varð strangari og árið 1564 gekk í gildi svonefndur Stóridómur, sem var ströng löggjöf í siðferðismálum.[1]

Tengt efni

Tilvísanir

  1. Már Jónsson. „Hvað er Stóridómur? “. Vísindavefurinn 23.8.2004. http://visindavefur.is/?id=4476. (Skoðað 7.5.2010).

Tenglar