Rote Armee Fraktion

Kennimark Baader-Meinhof-gengisins.

Rote Armee Fraktion („Rauða herdeildin“, oft skammstafað RAF), einnig kallað Baader-Meinhof-hópurinn eða Baader-Meinhof-gengið, var nafn á þýskum, kommúnískum skæruliðasamtökum. Samtökin voru stofnuð árið 1970. Meðal helstu meðlima samtakanna voru Andreas Baader, Gudrun Ensslin, Horst Mahler og Ulrike Meinhof. Vestur-þýska ríkisstjórnin auk flestra vestrænna bandamanna hennar töldu samtökin til hryðjuverkahópa.[1][2][3][4]

Baader-Meinhof-gengið framdi sprengjuárásir, pólitísk morð, mannrán, bankarán og komst í skotbardaga við lögreglu á um þriggja áratuga skeiði. Virkni hópsins var mest síðla árs 1977 en þá leiddu aðgerðir þeirra til þjóðarkreppu sem varð síðar kölluð „þýska haustið“. Hópurinn bar ábyrgð á alls um 34 dauðsföllum og særði enn fleiri á um þrjátíu árum. Þótt Baader-Meinhof-gengið sé frægara framdi það ekki eins mörg hermdarverk og hópurinn Revolutionäre Zellen, sem er talinn ábyrgur fyrir um 296 sprengjuárásum, íkveikjum og öðrum árásum frá 1973 til 1995.[5]

Ulrike Meinhof tók þátt í flótta Baaders úr fangelsi árið 1970.[6]

Stundum er talað um þrjár kynslóðir vígasamtakanna:

  • Til „fyrstu kynslóðarinnar“ töldust Baader, Ensslin, Meinhof og fleiri.
  • „Önnur kynslóðin“ tók við eftir að flestir meðlimir fyrstu kynslóðarinnar voru handteknir árið 1972.
  • „Þriðja kynslóðin“ var virk frá níunda áratugnum til ársins 1998 eftir að fyrsta kynslóðin dó út í Stammheim-fangelsinu árið 1977.

Þann 20. apríl árið 1998 var átta blaðsíðna vélrituðu bréfi faxað til fréttamiðilsins Reuters með undirskriftinni „RAF“ þar sem tilkynnt var að samtökin hefðu verið leyst upp.[7] Árið 1999 var gerð opinber rannsókn um það hvort hreyfingin hefði verið endurvakin eftir að rán var framið í Duisburg.[8] Í janúar árið 2016 báru þýskir lögreglumenn kennsl á þrjá meðlimi RAF í rannsókn á árás sem gerð var á brynbíl sem flutti með sér eina milljón evra. Grunsemdir eru því um að samtökin séu enn virk.[9] Þessi rán hafa þó verið rannsökuð sem glæpir en ekki hryðjuverk.

Tilvísanir

  1. Smith, J.; Moncourt, André, eds. (2009), The Red Army Faction: A Documentary History. Projectiles for the people, 1 (illustrated ed.), PM Press, bls. 601.
  2. „The other terrorists we have trouble naming | The Spectator“. The Spectator (bandarísk enska). Sótt 16. maí 2018.
  3. Passmore, L. (3. nóvember 2011). Ulrike Meinhof and the Red Army Faction: Performing Terrorism (enska). Springer.
  4. Bay, Charles Nord (1986). The Red Army Faction: Four Generations of Terror (enska). Defense Technical Information Center.
  5. IM.NRW.de Geymt 2 desember 2008 í Wayback Machine, Innenministerium Nordrhein-Westfalen: Revolutionäre Zellen und Rote Zora.
  6. "Baader-Meinhof Gang" Geymt 21 júní 2008 í Wayback Machine at Baader-Meinhof.com.
  7. „RAF-Auflösungserklärung“ (þýska).
  8. Verfassungsschutzbericht Nordrhein-Westfalen 2001: "Rote Armee Fraktion" Geymt 14 september 2004 í Wayback Machine, 2001, pp. 42 ff.
  9. Hume, Tim. „German terrorists come out of retirement to rob, police say“. CNN. Sótt 27. júní 2016.