Rote Armee Fraktion („Rauða herdeildin“, oft skammstafað RAF), einnig kallað Baader-Meinhof-hópurinn eða Baader-Meinhof-gengið, var nafn á þýskum, kommúnískum skæruliðasamtökum. Samtökin voru stofnuð árið 1970. Meðal helstu meðlima samtakanna voru Andreas Baader, Gudrun Ensslin, Horst Mahler og Ulrike Meinhof. Vestur-þýska ríkisstjórnin auk flestra vestrænna bandamanna hennar töldu samtökin til hryðjuverkahópa.[1][2][3][4]
Baader-Meinhof-gengið framdi sprengjuárásir, pólitísk morð, mannrán, bankarán og komst í skotbardaga við lögreglu á um þriggja áratuga skeiði. Virkni hópsins var mest síðla árs 1977 en þá leiddu aðgerðir þeirra til þjóðarkreppu sem varð síðar kölluð „þýska haustið“. Hópurinn bar ábyrgð á alls um 34 dauðsföllum og særði enn fleiri á um þrjátíu árum. Þótt Baader-Meinhof-gengið sé frægara framdi það ekki eins mörg hermdarverk og hópurinn Revolutionäre Zellen, sem er talinn ábyrgur fyrir um 296 sprengjuárásum, íkveikjum og öðrum árásum frá 1973 til 1995.[5]
Ulrike Meinhof tók þátt í flótta Baaders úr fangelsi árið 1970.[6]
Stundum er talað um þrjár kynslóðir vígasamtakanna:
Til „fyrstu kynslóðarinnar“ töldust Baader, Ensslin, Meinhof og fleiri.
„Önnur kynslóðin“ tók við eftir að flestir meðlimir fyrstu kynslóðarinnar voru handteknir árið 1972.
„Þriðja kynslóðin“ var virk frá níunda áratugnum til ársins 1998 eftir að fyrsta kynslóðin dó út í Stammheim-fangelsinu árið 1977.
Þann 20. apríl árið 1998 var átta blaðsíðna vélrituðu bréfi faxað til fréttamiðilsins Reuters með undirskriftinni „RAF“ þar sem tilkynnt var að samtökin hefðu verið leyst upp.[7] Árið 1999 var gerð opinber rannsókn um það hvort hreyfingin hefði verið endurvakin eftir að rán var framið í Duisburg.[8] Í janúar árið 2016 báru þýskir lögreglumenn kennsl á þrjá meðlimi RAF í rannsókn á árás sem gerð var á brynbíl sem flutti með sér eina milljón evra. Grunsemdir eru því um að samtökin séu enn virk.[9] Þessi rán hafa þó verið rannsökuð sem glæpir en ekki hryðjuverk.
Tilvísanir
↑Smith, J.; Moncourt, André, eds. (2009), The Red Army Faction: A Documentary History. Projectiles for the people, 1 (illustrated ed.), PM Press, bls. 601.