Rjómabúið á Baugsstöðum

Rjómabúið á Baugsstöðum er rjómabú sem var stofnað af 48 bændum úr Stokkseyrarhreppi og öðrum nágrannahreppum árið 1904 en var tekið í notkun árið 1905. Rjómabúið stendur við Þórðarker við Baugsstaðaá. Jón Gestsson smíðaði húsið. Rjómabúið var síðast í notkun árið 1952 og er það rjómabú sem lengst starfaði á Íslandi. Þegar mest var um rjómabú á landinu voru þau um 30 talsins.

Vélarnar í rjómabúinu gengu fyrir vatni frá vatnshjóli, en grafinn var 1500 metra langur skurður úr Hólavatni svo hægt væri að setja þær í gang. Þar var framleitt smjör, ostur og fleira sem gert var úr rjóma. Mest af smjörinu sem framleitt var í rjómabúinu var selt til Englands undir nafninu Danish butter.[1]

Varðveislufélag var stofnað um rjómabúið árið 1971 en fjórum árum seinna, árið 1975, var því breytt í safn. Á safninu er að finna allan búnaðinn sem var notaður þegar rjómabúið var enn starfandi. Upprunalegu vélarnar eru settar í gang fyrir gesti.

Tilvísanir

  1. „Rjómabúið á Baugsstöðum“. Byggðasafn Árnesinga. Sótt 11. maí 2023.