Richelieu kardináli

Málverk af Richelieu eftir Philippe de Champaigne frá því um 1637.

Armand Jean du Plessis de Richelieu, kardináli-hertogi af Richelieu (9. september 15854. desember 1642) var franskur stjórnmálamaður frá París og einn valdamesti maður Frakklands í valdatíð Loðvíks 13.. Meginþættir stefnu hans voru aukin miðstýring í Frakklandi með því að brjóta á bak aftur andstöðu við konungsvaldið og kaþólsku kirkjuna frá húgenottum og franska aðlinum, og eins andstaða við veldi Habsborgara í Evrópu.

Stjórnmálaferill

Hann var skipaður biskup af Luçon árið 1607 samkvæmt tillögu Hinriks 4. 1614 var hann kjörinn fulltrúi kirkjunnar fyrir héraðið Poitou á síðasta franska stéttaþingið (fyrir tíma Frönsku byltingarinnar) árið 1614. Þar var hann áberandi talsmaður fyrir sérréttindum kirkjunnar. Skömmu síðar var hann tekinn í þjónustu Önnu frá Austurríki, eiginkonu Loðvíks 13. og varð handgenginn Concino Concini, ítölskum ráðgjafa konungsmóðurinnar Mariu de'Medici.

1616 var Richelieu skipaður ríkisritari konungs og gerður ábyrgur fyrir utanríkismálum. 1617 var hins vegar gerð hallarbylting undir forystu Charles de Luynes gegn Maríu og Concini með samþykki Loðvíks. Concini var dæmdur til dauða og María var hneppt í stofufangelsi. Við þetta missti Richelieu öll völd. 1618 sendi konungur hann í útlegð til Avignon. Þegar María reyndi að leiða uppreisn nokkurra aðalsmanna árið 1619 bað konungur Richelieu um að hafa milligöngu um friðarsamning á milli mæðginanna þar sem hann var talinn helsti trúnaðarmaður Maríu. Richelieu tókst vel upp og þegar de Luynes lést 1621 reis stjarna hans hratt. 1622 gerði Gregoríusi 15. páfi hann að kardinála samkvæmt tillögu konungs.

Hann varð einn helsti ráðgjafi konungs í átökum hans við húgenotta 1622 og tók sæti í ríkisráði hans í apríl 1624. Þar blés hann til samsæris gegn forsætisráðherra konungs Charles de La Vieuville, sem var handtekinn fyrir spillingu sama ár. Richelieu tók síðan sæti hans.

  Þessi sögugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.