„Love Me Do“ / „P.S. I Love You“ Gefin út: 5. október 1962
„Please Please Me“ / „Ask Me Why“ Gefin út: 11. janúar 1963
Please Please Me er frumraunarplata Bítlanna. Hún var framleidd af George Martin og gefin út í Bretlandi af útgáfunni Parlophone þann 22. mars 1963. Breiðskífan inniheldur fjórtán lög sem eru blanda af ábreiðulögum ásamt frumsömdu efni eftir meðlimina John Lennon og Paul McCartney.
Bítlarnir höfðu skrifað undir hjá EMI í maí 1962 og voru settir undir Parlophone útgáfuna sem var rekin af Martin. Þeir gáfu út fyrstu smáskífuna „Love Me Do“ í október og komst hún í sautjánda sæti á Record Retailer, sem síðar varð opinberlegi vinsældalistinn í Bretlandi. Eftir það stakk Martin upp á að þeir skyldu taka upp lifandi plötu. Hann hjálpaði þeim að setja saman næstu smáskífuna þeirra, „Please Please Me“, sem komst í efsta sæti ýmissa óopinberra vinsældalista. Martin taldi Cavern Club, heimavettvang sveitarinnar í Liverpool, vera óhentugan fyrir upptöku og breytti planinu yfir í að gefa út hefðbundna stúdíóplötu. Að undanskildu því sem var nú þegar gefið út, tóku Bítlarnir upp Please Please Me á einum degi í EMI hljóðverinu þann 11. febrúar 1963. Martin sá um hljóðvinnslu fyrir lögin „Misery“ og „Baby It's You“ níu dögum síðar.
Platan fékk góðar móttökur í Bretlandi þar sem hún dvaldi í topp 10 sætunum í meira en ár, met fyrir frumraunarplötu sem stóð í hálfa öld. Hinsvegar var platan ekki gefin út í Bandaríkjunum þar sem hljómsveitin seldi illa mest megnið af árinu 1963. Eftir framkomu Bítlaæðisins þar í landi gaf Vee-Jay Records út útdrátt af plötunni undir nafninu Introducing... The Beatles í upphafi árs 1964. Á meðan skipti Capitol Records, bandaríska tónlistarútgáfa EMI, upp efninu af Please Please Me yfir á nokkrar plötur. Önnur lönd fengu aðrar útgáfur af breiðskífunni, sem hélt áfram til ársins 1987, þegar safnskrá Bítlanna var komið á geisladiska og stöðluð að bresku plötunum.
Please Please Me nýtur ennþá mikils lofs. Hún var kosin í 39. sæti á lista Rolling Stone yfir „500 bestu plötur allra tíma“ árið 2012, og sett í 622. sæti á þriðju útgáfu All Time Top 1000 Albums eftir Colin Larkin árið 2000.[5][6]
Lagalisti
Öll lögin voru samin af Lennon–McCartney, nema þar sem er tekið fram. Lengd laga er samkvæmt Jean-Michel Guesdon og Philippe Margotin og aðalraddir samkvæmt Ian MacDonald.[7][8]