Norðursvæðið (enska: Northern Territory) er svæði í miðjum norðurhluta Ástralíu. Það er fámennast af öllum fylkjum og svæðum Ástralíu með tæpa tvöhundruð þúsund íbúa. Þar eru einungis þrjú byggðarlög sem eitthvað kveður að, það eru höfuðborgin Darwin á norðurströndinni, Alice Springs í suðurhluta svæðisins og Katherine, aðeins fyrir sunnan Darwin. Upphaflega var Norðursvæðið hluti af nýlendunni Suður-Ástralíu (sem nú er fylki), en 1911 var það tekið af henni og gert að sérstöku svæði. Mjög harðbýlt er á svæðinu, meirihluti þess er eyðimörk og ræktarland af skornum skammti. Þar eru þó líka sumar af frægustu náttúruperlum Ástralíu, svo sem Uluru (eða Ayers-klettur), sem er líka einn helgasti staður frumbyggja svæðisins og í norðurhluta svæðisins er Kakadu þjóðgarðurinn. Helstu atvinnuvegir svæðisins eru ferðaþjónusta og námugröftur.