Nataša Pirc Musar

Nataša Pirc Musar
Nataša Pirc Musar árið 2022.
Forseti Slóveníu
Núverandi
Tók við embætti
23. desember 2022
ForsætisráðherraRobert Golob
ForveriBorut Pahor
Persónulegar upplýsingar
Fædd9. maí 1968 (1968-05-09) (56 ára)
Ljúbljana, Slóveníu, Júgóslavíu
StjórnmálaflokkurÓflokksbundin
MakiAleš Musar
Börn1
HáskóliHáskólinn í Ljúbljana
Vínarháskóli

Nataša Pirc Musar (f. 9. maí 1968) er slóvensk stjórnmálakona, lögfræðingur og blaðakona sem hefur verið forseti Slóveníu frá 23. desember 2022.

Æviágrip

Nataša Pirc Musar útskrifaðist með gráðu í lögfræði frá Háskólanum í Ljúbljana árið 1992 og hlaut lögmannsréttindi árið 1997. Hún hóf feril í blaðamennsku, fyrst á ríkissjónvarpsstöðinni Radiotelevizija Slovenija, þar sem hún flutti sjónvarpsfréttir, og síðar hjá einkareknu sjónvarpsstöðinni POP TV.[1] Hún úskrifaðist með doktorsgráðu frá Vínarháskóla með lokaritgerð þar sem hún fjallaði um togstreituna milli friðhelgi einkalífs og upplýsingafrelsis.

Árið 2003 hóf Pirc Musar störf fyrir Hæstarétt Slóveníu sem framkvæmdastýra mennta- og upplýsingamiðstöðvarinnar. Frá 2004 til 2014 hafði hún umsjón með upplýsingagjöf og varð upplýsingafulltrúi og síðan forseti sameiginlegrar eftirlitsstofnunar Europol frá 2012 til 2014.

Eftir að Pirc Musar lauk þessum störfum stofnaði hún eigin lögmannsstofu ásamt Rosönu Lemut Strle árið 2016. Stofan bar nafnið Pirc Musar & Lemut Strle og starfaði á tímabili fyrir bandarísku forsetafrúna Melaniu Trump (eiginkonu Donalds Trump Bandaríkjaforseta), sem er af slóvenskum uppruna. Pirc Musar var ráðin til að gæta hagsmuna Melaniu Trump og stöðva fyrirtæki sem reyndu að markaðssetja vörur með nafni hennar á forsetatíð eiginmanns hennar.[2]

Lögmannsstofan sérhæfði sig í málefnum sem tengdust friðhelgi einkalífs og hún starfaði einnig fyrir slóvenska Jafnaðarmannaflokkinn og fyrir sendiherra Slóveníu í Bandaríkjunum, Stanislav Vidovič.[1]

Forsetakosningarnar 2022

Í júní árið 2022 tilkynnti Pirc Musar að hún myndi gefa kost á sér í forsetakosningum Slóveníu í haust sama ár. Hún bauð sig fram sem óháður frambjóðandi hinnar frjálslyndu miðju en hún naut stuðnings fyrrverandi forsetanna Milans Kučan og Danilo Türk, auk slóvenska Pírataflokksins.[3]

Í fyrri umferð kosninganna, sem fór fram þann 23. október 2022, hlaut Parc Musar 27 % atkvæðanna en helsti keppinautur hennar, fyrrum utanríkisráðherrann Anže Logar, hlaut 34 %.[4] Hún hlaut 54 % atkvæða í seinni kosningaumferðinni sem fór fram þann 13. nóvember og var þar með kjörin forseti Slóveníu. Hún er fyrst kvenna til að gegna þessu embætti.[5]

Forseti lýðveldisins

Nataša Pirc Musar sór embættiseið þann 22. desember 2022 og tók við af Borut Pahor sem forseti Slóveníu daginn eftir.[6]

Tilvísanir

  1. 1,0 1,1 « Nataša Pirc Musar: How I became Melania Trump's attorney, and we never met!», Telegraf, 28. september 2017.
  2. „Lögfræðingur Melaniu Trump gæti orðið forseti Slóveníu“. mbl.is. 13. nóvember 2022. Sótt 4. febrúar 2023.
  3. « Slovénie : le conservateur Anze Logar en tête du premier tour de la présidentielle, devant Natasa Pirc Musar », Le Monde, 24 octobre 2022
  4. Markús Þ. Þórhallsson (24. október 2022). „Enginn hlaut meirihluta í slóvensku forsetakosningunum“. RÚV. Sótt 4. febrúar 2023.
  5. „Fyrsta konan sem verður forseti“. mbl.is. 13. nóvember 2022. Sótt 4. febrúar 2023.
  6. „Predsednica Nataša Pirc Musar naklonjena uvedbi nove pristojnosti“ (slóvenska). N1. 24. desember 2022. Sótt 4. febrúar 2023.


Fyrirrennari:
Borut Pahor
Forseti Slóveníu
(13. nóvember 2022 –)
Eftirmaður:
Enn í embætti