Narfi Snorrason

Narfi Snorrason (um 12101284) var íslenskur prestur á Sturlungaöld. Hann var af ætt Skarðverja, sonur Skarðs-Snorra Narfasonar og Sæunnar Tófudóttur konu hans.

Narfi hlaut prestvígslu hjá Guðmundi biskupi góða. Hann kvæntist Valgerði, dóttur Ketils Þorlákssonar prests og lögsögumanns á Kolbeinsstöðum í Hnappadal og konu hans Halldóru Þorvaldsdóttur, systur Gissurar jarls. Hann settist að á Kolbeinsstöðum hjá tengdafólki sínu 1253 og var þar prestur til dauðadags. Narfi var vinsæll og þótti mikilsháttar. Þegar boð kom um það frá erkibiskupi að prestum skyldi bannað að giftast og þeir sem væru þegar kvæntir skyldu skilja við konur sínar en missa vígslu ella fékk hann sérstaka undanþágu hjá erkibiskupi og hélt bæði konu sinni og prestsvígslu.

Þau hjónin áttu þrjá syni, Þorlák, Þórð og Snorra, sem urðu allir lögmenn. Þorlákur bjó á Kolbeinsstöðum en hinir tveir á Skarði, sem Narfi hefur erft vegna þess að Bjarni bróðir hans, sem þar bjó, hefur líklega dáið barnlaus.

Heimildir

  • „Elzta óðal á Íslandi. Lögberg, 5. ágúst 1926“.
  • „Bogi Benediktsson: Sýslumannaæfir“.