Nýlistasafnið (eða Nýló) er safn og sýningarstaður fyrir samtímamyndlist. Sýningarrými Nýlistasafnsins er til húsa í Marshallhúsinu að Grandagarði 20 í Reykjavík en safneign og rannsóknaraðstaða er í Völvufelli 13-21, í efra Breiðholti. Nýló var stofnað árið 1978, upphaflega sem safn eingöngu. Stofnendur safnsins voru um tuttugu myndlistarmenn sem komu saman á vinnustofu Ólafs Lárussonar, eins stofnendanna. Þeir gerðu drög að skipulagsskrá sem safnið starfar enn eftir. Nýlistasafnið er fulltrúaráð (áður félagasamtök), listamannarekið safn og sýningavettvangur fyrir tilraunir í myndlist.
Sagan
Tilgangur með stofnun Nýlistasafnsins var fyrst og fremst að opna listheiminn á Íslandi fyrir nýjungum, með það að markmiði að gefa fleiri myndlistarmönnum kost á að vinna að list sinni hérlendis. Í fyrstu einsettu stofnendur sér að varðveita og safna myndlist sem varð til í kringum SÚM hópinn en árið 1981 var Gallerí Nýlistasafnsins stofnað og var það í upphafi rekið aðskilið frá söfnunarstarfseminni. Starfsemin varð þannig tvíþætt, með þeim markmiðum; að safna og varðveita samtímamyndlist annarsvegar og að þjóna sem sýningavettvangur framsækinnar myndlistar hinsvegar. Fyrsti formaður stjórnar var Níels Hafstein, sem síðar stofnaði Safnasafnið. Það varð fljótlega eitt lykilhlutverk Nýlistasafnsins að koma íslenskri samtímalist á framfæri erlendis og einnig að kynna það markverðasta í erlendri list fyrir landsmönnum. Nýlistasafnið varð þannig snemma helsta miðstöð fyrir strauma og tilraunir í myndlist á Íslandi. Margar sýningar í Nýlistasafninu hafa markað tímamót í íslenskri myndlistarsögu og ljóst er að stofnun safnsins ýtti við opinberum söfnum og flýtti fyrir framþróun innan íslenska listheimsins.
Í yfir þrjátíu ára sögu Nýlistasafnsins hefur starfsemi þess oft verið umdeild og sýningar og uppákomur hafa á tímum vakið sterk viðbrögð og deilur. Ætla má að Nýlistasafnið hafi átt mikinn þátt í að opna augu almennings fyrir afstæðri fagurfræði samtímalistar og breyttum viðfangsefnum myndlistarmanna í samtímanum.
Í tæplega fjörutíu ára sögu stofnunarinnar hafa yfir 2000 listamenn verið tengdir dagskrá safnsins.
Öllum myndlistarmönnum er frjálst að sækja um sýningahald í Nýlistasafninu og eru umsóknir teknar fyrir á stjórnarfundum þess. Skipulag sýningahalds er í höndum stjórnar safnsins sem mótar sýningastefnu hvers tímabils. Nýlistasafnið er styrkt af Íslenska ríkinu og Reykjavíkurborg, auk einkaaðila.
Rýmið
Upprunalega var Nýlistasafnið til húsa í bakhúsi við Vatnsstíg 3b þar sem SÚM hópurinn hafði aðsetur. Starfsemi safnsins var þar til húsa í 24 ár og gaf Alþýðubankinn safninu það húsnæði. Árið 1979 flutti safnið í framhúsið við Vatnstíg 3[1] en árið 2006 flutti safnið sig svo um set aftur og var til húsa við Laugaveg 26 þar til í lok árs 2009. Til ársins 2014 var Nýlistasafnið til húsa að Skúlagötu 28 í fyrrum húsnæði kexverksmiðjunnar Frón. Því næst var safnið flutt að Völvufelli 13-21 í efra Breiðholti þar sem safneigninni var vel komið fyrir ásamt góðri rannsóknaraðstöðu fyrir fræðimenn. Sýningarsalur safnsins var þá á efri hæð í sama húsnæði en hann var aðeins tímabundin lausn á meðan leitað væri að varanlegri og betri húsakosti. Núverandi húsakynni Nýlistasafnsins eru í Marshallhúsinu að Grandagarði 20. Þangað flutti safnið sýningaraðstöðu sína í mars 2017. Safneignin mun þó verða hýst áfram í Breiðholti.
Félag Nýlistasafnsins
Félag Nýlistasafnsins var stofnað þann 5. janúar 1978. Samkæmt skipulagsskrá sér félagið um rekstur og eignir Nýlistasafnsins. Allir áhugamenn um samtímamyndlist geta gerst félagar í Nýlistasafninu. Árið 2010 voru meðlimir alls 274; félagsaðild hefur farið vaxandi og vorið 2017 voru félagar orðnir 328. Langflestir félagar eru starfandi íslenskir myndlistarmenn auk erlendra myndlistarmanna.
Safneignin
Þegar Nýlistasafnið var stofnað var landslag í íslenskum myndlistarheimi einsleitt; opinberir styrkir runnu í þröngan farveg til málara og myndhöggvara sem unnu með hefðbundnari viðfangsefni listarinnar. Listasafn Íslands var eina safnið með markvissa söfnun á íslenskri myndlist en fyrsti formaður stjórnar Nýlistasafnsins, Níels Hafstein, orðaði það svo að á þeim tíma hafi í Listasafni Íslands „ekki verið áhugi fyrir öðru en náttúrustælingum, expressionisma og abstraktlist.” Dagblöð fjölluðu í gagnrýnum tón um nýsköpun í listum og einn gagnrýnandi hélt því fram að nú væri komið að endalokunum listarinnar og sagði um sýningu í Nýlistasafninu: „Þetta er ekki list... þetta geta allir gert”.
Stofnendur Nýlistasafnsins gerðu sér grein fyrir því að opinber listasaga mótast að mestu leyti út frá þeim verkum sem finna má í söfnum. Ákvörðun þeirra að stofna nýtt listasafn þjónaði þannig tvíþættu hlutverki: að forða eigin listaverkum frá glötun og varðveita verk sem annars hefðu glatast vegna áratugs löngu áhugaleysi opinberra safna á verkum SÚM hópsins. Nýlistasafnið hefur áfram sinnt þessu hlutverki og fyllt í þau göt sem myndast enn þann dag í dag í safneignum opinberra safna. Fyrstu 15 árin var söfnunin markviss og bæði innlendir og erlendir listamenn gáfu verk í safneignina. Það er markmið núverandi stjórnar að hefja aftur skipulagða söfnun verka í safneign Nýlistasafnsins.
Árið 2008 var ráðist í það verkefni að flokka og skrá skjalasafn Nýlistasafnins í samstarfi við Borgarskjalasafnið og fékk verkefnið vinnuheitið: Haldið til haga. Skjalasafn safnsins inniheldur pappíra sem tengjast safninu, sögu þess og sýningarhaldi. Þar er einnig að finna önnur skjöl sem tengjast íslenskri samtímalistasögu meðal annars frá SÚM hópnun, Gallerí Suðurgötu 7, Gallerí Lóu í Amsterdam og skjöl tengd ýmsum öðrum listamannareknum sýningarrýmum og verkefnum sem listamenn hafa átt frumkvæði að. Það er markmið skjalasafnsins að safna gögnum sem tengjast listamannarekinni starfsemi allt til dagsins í dag. Stór hluti skjalasafnsins var formlega afhentur Borgarskjalasafni þann 15. febrúar 2010.
Heimildarsafn um listamannarekin rými
Frá því á sjöunda áratugnum hefur verið starfræktur mikill fjöldi listmannarekinna sýningarýma, rekin af íslenskum myndlistarmönnum, bæði innanlands og erlendis. Nýlistasafnið er elsta og þekktasta listamannarekna sýningarými á Íslandi. Ein af skyldum safnsins, samkvæmt skipulagsskrá frá 1978, er að sinna almennum skyldum listasafns um söfnun, varðveislu, skráningu, skrif, upptökur og útgáfur er varða heildarsögu myndlistar á Íslandi frá 1960. Sem liður í því að sinna margþátta hlutverki sínu hefur Nýlistasafnið haldið til haga heimildarsafni, þar sem er meðal annars að finna gögn um listamannarekin sýningarými.
Árið 2008 var tekin ákvörðun um að koma á fót Arkífi um listamannarekin rými. Nýló hefur tekið saman lista yfir um eitt hundrað sýningarými um land allt og út fyrir landsteinana og sem hluta af þeirri heimildaröflun hefur safnið samband við þá aðila sem ráku rýmin og innkallar efni og heimildir eftir föngum. Markmiðið er að safna saman heimildum um listamannarekin sýningarými; upprunalegum heimildum, boðskortum, plakötum, listum yfir þá sem sýndu í rýmunum og blaðaúrklippum. Ennfremur að taka viðtöl við þá aðila sem ráku rýmin og safna saman munnlegum heimildum um ferlið og að lokum að gera heimildirnar aðgengilegar fyrir aðila sem vinna að rannsóknum á íslenskri myndlist og menningarlandslagi.
Langtímamarkmið verkefnisins er að Nýlistasafnið verði safn heimilda um listamannarekin sýningarými og taki til frambúðar við öllu því efni sem tengist þeirri sögu, haldi því til haga, skrái og varðveiti.
Heimildarsafn um gjörninga
Vinna við söfnun á heimildum um gjörningaverk hófst í byrjun árs 2008 og stendur enn yfir. Afrakstur söfnunarinnar fyrri part árs 2008 var sýndur á Listahátíð og var af því tilefni prentað veglegt upplýsingadreifirit með texta og myndum um verkefnið. Í safneign Nýlistasafnsins var upphaflega að finna heimildir um 20 gjörningaverk frá 1978 til 1981. Nú þegar hafa 46 gjörningar eða heimildir um gjörninga bæst við í safnið. Söfnun heimilda fer fram í nánu samstarfi við viðkomandi listamenn, sem hafa unnið með gjörningaformið í listsköpun sinni. Fjölmargir listamenn þjóðarinnar hafa fengist við gjörningaformið og þónokkrir gert hann að sínu helsta miðli. Markmiði verkefnsins er að varðveita heimildir um gjörninga og gjörningatengd verk og að Nýlistasafnið verði grunnvarðveislusafn á gjörningaverkum.
Í þessum tilgangi átti Nýlistasafnið frumkvæði að samstarfi við Ríkisútvarpið þar sem listamenn eru beðnir að segja frá og lýsa völdum gjörningum. Ríkisútvarpið tekur þessar frásagnir upp á band og útvarpar en upptökurnar verða hluti af heimildasafni Nýlistasafnsins um gjörningalistir.
Útgáfa
Nýlistasafnið hefur í áranna rás gefið út fjölda bóka um listamenn og einstaka sýningar í samvinnu við ýmsa aðila, t.a.m. Mál og menningu, Útúrdúr bókaútgáfu og Skaftfell Menningarmiðstöð svo eitthvað sé nefnt.
Árið 2008 gaf safnið út bókina Nýlistasafnið 1978-2008.
Tilefni útgáfunnar var að fagna 30 ára afmæli safnsins, sem var 5. janúar 2008. Tilgangurinn með ritinu er að ná utan um sýningasögu safnsins og vera heimild um merka stofnun í myndlist samtímans. Með þessari útgáfu er skjala- og gagnasafn safnsins opnað og þannig er áhugasömum gefin innsýn í hvernig safnið hefur kynnt sig og starfsemi sína í gegnum tíðina. Í ritinu er að finna grunnupplýsingar um starfsemi og hlutverk safnsins og miðast uppsetning þess fyrst og fremst við að auðvelt sé að leita upplýsinga og hafa ánægju af um leið.
Ritstjóri er Tinna Guðmundsdóttir og hönnuður bókarinnar er Ármann Agnarsson.
S7 – Suðurgata >> Árbær (ekki á leið) - Gallery Suðurgata 7
var gefin út árið 2014. Hún inniheldur frásögn af listamannareknu rými í Reykjavíkurborg á árunum 1977-1982. Í útgáfunni sem kom út samhliða sýningunni er starfsemi Gallerís Suðurgötu 7 sem listamannareknu rými gerð góð skil. Verkefnið var samvinnuverkefni tveggja ólíkra stofnana, Nýlistasafnsins og Minjasafns Reykjavíkur og var gefin út í tilefni sýningarinnar S7 - Suðurgata >> Árbær (ekki á leið) sem var á dagskrá Listahátíðar 2014. Í Nýlistasafninu er heimildarsafn um listamannarekin rými, þar sem m.a er að finna heimildir tengdar Galleríi Suðurgötu 7. Minjasafn Reykjavíkur varðveitir húsið sjálft, Suðurgötu 7, sem var flutt í heilu lagi á Árbæjarsafn árið 1983 og þar má kynna sér sögu þess framundir aldamótin 1900.
Samantektin er frásögn um Gallerí Suðurgötu 7 sem er samansett úr ýmsum verksummerkjum eftir starfsemina. Fyrst og fremst er stuðst við frumgögn um galleríið sem varðveitt eru í heimildasafni Nýlistasafnsins um listamannarekin rými. Þá voru tekin viðtöl við nokkra úr hópi gallerísins. Einnig var leitað til sýningarstaða erlendis þar sem galleríið hélt sýningar og loks var notast við ýmsar eftirheimildir lista- og fræðimanna, bæði innlendar og erlendar.
Bókin Án titils / Untitled er gefin út í framhaldi sýningarinnar Rolling Line, sem opnaði nýtt rými Nýlistasafnsins í Marshallhúsinu þann 18. mars 2017. Útgáfan inniheldur mikið magn myndefnis og heimilda frá vinnustofu Ólafs Lárussonar sem safninu var ánafnað síðastliðið ár frá fjölskyldu listamannsins. Í bókinni er texti eftir Halldór Björn Runólfsson og viðtöl við vini Ólafs og samtímamenn. Þ.á.m. Hrein Friðfinnsson, Hildi Hákonardóttur, Kees Visser, Kristján Guðmundsson, Magnús Pálsson, Níels Hafstein, Rúrí, Sigurð Guðmundsson og Þór Vigfússon. Í textanum kemur einnig fyrir rödd listamannsins en brot úr viðtölum við Ólaf koma víða við ásamt krónólógíu yfir ævi listamannsins. Þetta er í fyrsta sinn sem gefin er út bók um verk og feril Ólafs Lárussonar.