Markerville

52°07′25″N 114°10′14″V / 52.12361°N 114.17056°V / 52.12361; -114.17056 (Markerville)


Áin Huld við Markerville

Markerville er lítið þorp sem stendur við austurbakka árinnar Huld (Medicine River) í Alberta, Kanada. Huld rennur saman við Skógarhjartará (Cree: ᐋᐧᐋᐧᐢᑫᓯᐤ ᓰᐱ eða wâwâskêsiw-sîpiy) fyrir norðan Innisfail sem er um 16 mílur frá Markerville. Íbúar þess í dag eru um 42.[1]

Árið 1888 kom vesturfarinn Sigurður J. Björnsson til Alberta og með aðstoð Ólafs Guðmundssonar (Goodman) í Calgary samdi hann um að stofna mætti Íslendingabyggð á þessu svæði. Í kjölfarið kom hópur Íslendinga frá Norður-Dakóta í júní 1888. Í ágúst 1888 voru um 12 íslenskar fjölskyldur í byggðinni.[2] Sumarið var rigningasamt og mývargurinn gerði mönnum lífið leitt. Árið á eftir kom Stephansson-fjölskyldan norður til Markerville. Skáldið Stephan G. Stephansson sótti um landskikku (homestead) og mun hafa stungið upp á íslenska nafnið Tindastóll fyrir nýja pósthúsið. Markerville-pósthúsið var stofnað fljótlega þar á eftir og varð Óli Benediktsson fyrsti póstafgreiðslumaðurinn. Einnig var byggt osta- og smjörgerðarhús. í júlí 1899 var stofnað svokallað Tindastóll Butter and Cheese Association. Árið 1903 var myndað hlutafélag til þess að byggja samkomuhús (Fensala Hall) skammt frá smjörgerðarhúsinu. Kirkja var reist árið 1907.

Eitt kvöldið sýndi Stephan [G. Stephansson] okkur grafreit fólksins síns, og benti hann mér á þann reit, er hann ætlaði sér — í norðaustur-horni garðsins. Eg spurði hann, af hverju að hann hefði valið þennan sérstaka blett handa sér. "Af því eg vil vera sem allra næst Íslandi," svaraði hann.[3]

Heimildir

  1. „Population and dwelling counts, for Canada, provinces and territories, and designated places, 2011 and 2006 censuses (Alberta)“. Statistics Canada. 8. febrúar 2012. Sótt 7. apríl 2012.
  2. „Fregnir frá hinum íslenzku nýlendum: Í Alberta-nýlendu Íslendinga, 28. ágúst 1888, Heimskringla (13.09.1888): 4“. 27. júní 2018. Sótt 27. júní 2018.
  3. J. P. Pálsson, Stephan G. Stephansson: Nokkur orð um skáldið og manninn, Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga 9 (1927): 50.