Markús Skeggjason

Markús Skeggjason (d. 15. október 1107) var íslenskur lögsögumaður og skáld á 11. og 12. öld. Ari fróði segir í Kristni sögu að hann hafi verið vitrastur lögmanna á Íslandi, annar en Skafti (Þóroddsson).

Markús var sonur Skeggja Bjarnasonar og Hallberu Grímsdóttur og var kominn í beinan karllegg af Ingólfi Arnarsyni. Hann var fyrst kosinn lögsögumaður 1084, endurkjörinn hvað eftir annað og gegndi embættinu allt til dauðadags 1107. Hann hefur verið mjög fróður og líklega lærður, var einn af heimildarmönnum Ara fróða, sem segir að hann hafi sagt sér ævi allra lögsögumanna sem greint er frá í Íslendingabók, „en honum sagði Þórarinn, bróðir hans, ok Skeggi faðir þeira, ok fleiri spakir menn til þeira ævi, er fyr hans minni váru, at því er Bjarni inn spaki hafði sagt, föðurfaðir þeira, er munði Þórarin lögsögumann ok sex aðra síðan.“

Ari segir líka frá því að Markús var líka með í ráðum ásamt Sæmundi fróða og fleiri höfðingjum þegar Gissur Ísleifsson fékk tíundina samþykkta á Alþingi.

Markús var skáld og orti meðal annars drápu um Eirík góða Danakonung. Drápuna orti hann skömmu eftir lát konungs árið 1103, og er hún lofgjörð um Eirík konung og aðalheimildin um sögu hans.

Kona Markúsar var Járngerður Ljótsdóttir. Dóttir þeirra, Valgerður, giftist Þórði Skúlasyni presti í Görðum á Akranesi, og var sonur þeirra Böðvar Þórðarson í Görðum, móðurafi Snorra Sturlusonar og bræðra hans.

Tenglar

Heimildir

  • „Íslendingabók og kerfið á Íslandi“.