Foreldrar Margrétar voru Ramon Bereguer 4., greifi af Provence, og Beatrice af Savoja, dóttir Tómasar greifa af Savoja. Margrét hét eftir ömmu sinni, Margréti af Genf, sem hafði verið á leið til Parísar að giftast Filippusi 2. Frakkakonungi þegar Tómas af Savoja rændi henni og giftist henni sjálfur.
Margrét var elst fjögurra systra sem allar voru orðlagðar fyrir fegurð og urðu allar drottningar. Næst Margréti var Elinóra af Provence, sem giftist Hinrik 3. Englandskonungi, og voru þær systur alla tíð mjög nánar. Síðan kom Sanchia, sem giftist Ríkharði jarli af Cornwall, bróður Hinriks 3. og einum auðugasta manni Evrópu, sem var svo kjörinn konungur Þýskalands 1257. Yngst var Beatrix, sem giftist Karli af Anjou, yngsta bróður Loðvíks 9 og varð drottning Sikileyjar árið 1266.
Margrét giftist Loðvík 27. maí1234, þá nýorðin þrettán ára, en brúðguminn var tvítugur. Hún var krýnd daginn eftir. Hjónaband þeirra virðist hafa verið gott framan af þótt Loðvík væri mun guðræknari og lítillátari en Margrét.
Hún fylgdi manni sínum þegar hann fór í Sjöundu krossferðina. Þegar fregnir bárust af því til Damietta að Egyptar hefðu tekið hann höndum lá hún á sæng en bað riddarann sem stóð vörð um svefnherbergi hennar að drepa sig og nýfæddan soninn fremur en að láta þau falla í hendur múslima.
Hún tókst líka á hendur stjórn liðsaflans sem eftir var, gerði ráðstafanir til að tryggja nægan mat fyrir alla kristna menn í borginni og safnaði síðan saman fé til að greiða gríðarhátt lausnargjald fyrir mann sinn. Margrét varð þannig eina konan sem stýrt hefur krossferð þótt um skamma hríð væri.
Hún dvaldi síðan áfram með manni sínum í Landinu helga allt til 1254 og eignaðist þar tvö börn til viðbótar en alls áttu þau hjónin níu börn sem komust upp.
Margrét var mjög metnaðargjörn og lét til sín taka í stjórnsýslu en með misjöfnum árangri og Loðvík var óánægður með ýmis tiltæki hennar. Þegar elsti sonur þeirra, Loðvík, lést árið 1260 taldi Margrét Filippus, sem þá varð ríkiserfingi, fimmtán ára gamall, á að sverja eið að því að sama hversu gamall hann yrði þegar hann erfði ríkið, þá skyldi hann hlíta ráðum móður sinnar þar til hann yrði þrítugur. Þegar Loðvík, sem sjálfur hafði lengi verið undir stjórn móður sinnar, Blönku, komst að þessu hafði hann þegar samband við páfann og fékk Filippus leystan undan eiðnum.
Loðvík dó síðsumars 1270 í Áttundu krossferðinni í Túnis og einnig Jóhann sonur þeirra, sem var barnið sem fæddist í Damietta 1250. Margrét hafði ekki farið með manni sínum í krossferðina í þetta sinn. Þegar Filippus 3. tók við sneri hún aftur til bernskuheimkynna sinna í Provence og dvaldi þar til dauðadags, 21. desember 1295.