Soamsawali Kitiyakara (g. 1977; skilin 1991) Yuvadhida Polpraserth (g. 1994; skilin 1996) Srirasmi Suwadee (g. 2001; skilin 2014) Suthida Tidjai (g. 2019)
Börn
8
Maha Vajiralongkorn Bodindradebayavarangkun (taílenska: มหาวชิราลงกรณ บดินทรเทพยวรางกูร; f. 28. júlí 1952), einnig þekktur undir konungsnafninu Rama 10., er núverandi konungur Taílands. Hann er eini sonur konungsins Bhumibols Adulyadej og drottningar hans, Sirikit.
Æviágrip
Maha Vajiralongkorn fæddist árið 1952 í Dusit-konungshöllinni í Bangkok. Mestalla ævi sína hefur hann lifað í skugga föður síns, hins geysivinsæla Bhumibols Adulyadej Taílandskonungs. Hann hlaut undirstöðumenntun ásamt þremur systrum sínum í hirðskóla í Chitriada-höll í Bangkok en gekk síðan í skóla á Englandi, fyrst í konunglega skólann í Sussex og svo í Millfield-skólann í Somerset. Árið 1970 var Vajiralongkorn sendur í konunglegan skóla í Sydney í Ástralíu og var hann þar í eitt ár þar til hann útskrifaðist loks frá hernaðarskóla í Duntroon í Kanada.[1]
Sem krónprins naut Vajiralongkorn aldrei vinsælda á við föður sinn, sem Taílendingar nánast tilbáðu sem guð. Vajiralongkorn hefur ávallt haft orð á sér fyrir að vera óútreiknanlegur „vandræðagemsi“ og framkoma hans hefur oft vakið hneyksli. Árið 1996 hengdi hann til dæmis tilkynningu upp á veggi konungshallarinnar í Bangkok þar sem hann sakaði þáverandi eiginkonu sína og barnsmóður opinberlega um framhjáhald.[2] Um aldamótin var jafnvel óttast að uppreisnarástand gæti skapast ef Vajiralongkorn tæki við ríkinu eftir föður sinn.[3]
Árið 2009 birti Wikileaks myndband af krónprinsinum að halda veglega afmælisveislu fyrir púðluhundinn sinn, Fúfú. Á myndbandinu sést Vajiralongkorn ásamt nakinni þáverandi eiginkonu sinni mata hundinn á stærðarinnar afmælistertu á meðan einkennisklæddir þjónar stjana við þau.[4] Hundurinn Fúfú hafði einnig verið sæmdur tign yfirmarskálks í taílenska flughernum.[5]
Vajiralongkorn varð konungur þegar faðir hans lést eftir sjötíu ára valdatíð sína í október árið 2016. Hann tók þó ekki við völdum og skyldum konungsembættisins fyrr en ári síðar þar sem hann vildi tíma til þess að syrgja föður sinn.[6]
Þann 1. maí árið 2019 kvæntist Vajiralongkorn lífverði sínum, konu að nafni Suthidu Tidjai.[7] Suthida varð formlega drottning Taílands næsta dag.[8] Fáeinum dögum síðar, þann 4. maí, var Vajiralongkorn formlega krýndur konungur Taílands í þriggja daga langri krýningarathöfn.[9]