Lovsamling for Island

Lovsamling for Island (Lagasafn fyrir Ísland) er útgáfuverk með safni lögfræðiheimilda sem snerta Ísland frá árabilinu 1096–1874. Það kom út á árunum 1853–1889 og er alls 21 bindi.

Efni ritverksins verður best lýst með undirtitlinum sem er á titilblaði, en þar stendur: „Úrval af mikilvægustu eldri og yngri lögum og tilskipunum, úrskurðum, fyrimælum og reglugerðum, Alþingisdómum og samþykktum, bréfum stjórnardeilda, skipulagsskrám og gjafabréfum, ásamt öðrum skjölum sem varpa ljósi á réttarfar og stjórnarfar á Íslandi á fyrri og seinni tímum.“

Jón Sigurðsson forseti átti hugmyndina að útgáfunni og sá um hana að mestu, en fékk til liðs við sig sem lögfræðilegan ráðgjafa Oddgeir Stephensen stjórnardeildarforseta. Í ársbyrjun 1845 rituðu þeir kansellíinu bréf og óskuðu eftir styrk til að undirbúa verkið. Það var samþykkt haustið 1847 og komu fyrstu tvö bindin út árið 1853.

Við afmörkun efnisins kom til greina að miða við upphaf einveldisins árið 1661, eða þegar Rentukammerið tók við málefnum Íslands um 1683, eða þegar farið var að nota Norsku lög um 1700 og Hæstiréttur Danmerkur varð æðsta dómsvald í íslenskum málum. Ákveðið var að byrja á tíundarlögum Gissurar biskups Ísleifssonar, 1096, en farið er fljótt yfir sögu í fyrsta bindinu sem nær til 1720.

Um útgáfu einstakra binda sáu:

  • 1.–15. bindi: Jón Sigurðsson og Oddgeir Stephensen.
  • 16.–17. bindi: Jón Sigurðsson.
  • 18.–19. bindi: Oddgeir Stephensen.
  • 20.–21. bindi: Hilmar Stephensen og Ólafur Halldórsson.

Málið á flestum skjölunum er danska, en sum eru þó á íslensku. Sum skjölin hafa einnig birst í öðrum heimildasöfnum, t.d. Íslensku fornbréfasafni.

Á árunum 1855–1875 komu út hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi árleg hefti nefnd Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands sem síðan voru gefin út í þremur bindum (1864, 1870 og 1875) og er þar íslenskur texti flestra þeirra stjórnvaldsákvarðana sem birtar voru árin 1854–1874 en danski textinn er í Lovsamling for Island.

Ástæðan fyrir því að Lovsamling for Island endar á árinu 1874, er sú að þá fóru að koma út Stjórnartíðindi fyrir Ísland, sem hafa komið út samfellt til þessa dags. A-deildin kom út á íslensku og dönsku til 1918, en eftir það á íslensku. B-deildin aðeins á íslensku.

Þó að Lovsamling for Island sé ekki tæmandi heimidasafn, er það mikilvægt sagnfræðilegt og lögfræðilegt heimildarrit, en er minna notað en skyldi vegna þess hversu fágætt það er.

Heimildir

  • Lovsamling for Island I, Kbh. 1853, formáli.

Tengill