Laufabrauð

Ósteikt og steikt laufabrauð.
Barn að skera út laufabrauð.
Ýmis konar flókin laufabrauðsmynstur.

Laufabrauð er næfurþunn og stökk hveitikaka sem er mikilvægur hluti íslenskra jóla og þorrans. Laufabrauðið tengist jólum alveg sérstaklega, en í upphafi aðventu safnast margar íslenskar fjölskyldur, ættingjar og vinir saman til að skera og steikja laufabrauð. Laufabrauðið er venjulega skorið með litlum skurðarhnífum oftast vasahnífum en einnig eru til laufabrauðsjárn þar sem mynstrið er skorið í kökurnar með því að renna yfir þær þar til gerðu hjóli.

Saga laufabrauðsins

Ekki er vitað hvenær farið var að gera laufabrauð. Minnst er á það í orðabók Jóns Ólafssonar frá Grunnavík frá fyrri hluta 18. aldar. Þar segir að laufabrauð sé sælgæti Íslendinga. Það telst því meðal þjóðlegustu rétta. Mynd af laufabrauði er á frímerki sem Pósturinn gaf úr fyrir jólin 2007. Merkið er sérstætt að því leyti að það er kringlótt.

Í stuttu máli

Deig laufabrauðsins er flatt út og hringskorið eftir diski og látið liggja undir rökum dúk á skurðarbretti þar til tekið er til við skurðinn. Í laufabrauðið er skorið allavega mynstur, en aðallega hið „fléttaða“ laufamynstur sem laufabrauðið er kennt við. Að skurði loknum er deigið smurt með smjöri og síðan steikt í fitu.

Laufabrauðið er sérlega þunnt, en margir telja að það sé vegna þess að kornskortur hrjáði Íslendinga hér áður fyrr (sérstaklega á einokunartímanum á 17. og 18. öldinni).

Uppskrift

Til eru margar uppskriftir að laufabrauði, en eiga þær það allar sameiginlegt að innihalda mikið af hveiti. Stundum er blandað í það rúgméli eða heilhveiti eins og í eftirfarandi uppskrift.

Fyrst er mjólkin hituð ásamt smjörlíki og kúmeni. Síðan er ofangreindu hellt yfir mjölið og öllu hnoðað saman. Deigið er síðan flatt út uns það er mjög þunnt, en þá er það skorið, pikkað eða skreytt. Laufabrauðið er síðan steikt í heitri feiti.

Heimildir

  • Hallgerður Gísladóttir (1999). Íslensk matarhefð. Mál og menning, Reykjavík.

Tenglar