Þorramatur er hefðbundinn íslenskur matur sem hefð er fyrir að bera fram á þorra, sérstaklega á svokölluðum þorrablótum, sem eru miðsvetrarhátíð í fornum stíl. Mörg veitingahús í Reykjavík og annars staðar bjóða þá þorramat, sem oftast eru kjöt- eða fiskafurðir, verkaðar með hefðbundnum aðferðum og bornar fram niðursneiddar í trogum.
Upphaf þorramatar má rekja til miðsvetrarmóta hinna ýmsu átthagafélaga á fyrri hluta 20. aldar (svo sem Breiðfirðingamót og Árnesingamót). Á þessum mótum upp úr 1950 voru oft auglýst „hlaðborð“, „íslenzkur matur“ eða „íslenzkur matur að fornum sið“ og voru þar bornir fram nokkrir réttir vel þekktir í íslenskum sveitum en voru orðnir sjaldséðir á borðum íbúa þéttbýlisstaða á 6. áratugnum. Orðið „þorramatur“ kom hins vegar hvergi fyrir fyrr en árið 1958 þegar veitingastaðurinn Naustið við Vesturgötu í Reykjavík fór að bjóða upp á sérstakan „þorramatseðil“ sem var hefðbundinn sveitamatur borinn fram í trogum sem smíðuð voru eftir fyrirmyndum á Þjóðminjasafninu. Yfirlýstur tilgangur með þorramatnum var, að sögn veitingamannsins á Naustinu, að bjóða fólki upp á að smakka íslenskan mat án þess að þurfa að vera félagi í átthagafélagi.
Þorramaturinn var upphaflega hópmatseðill eða hlaðborð en árið eftir lét Naustið smíða minni trog sem hentuðu undir mat fyrir tvo. Fljótlega varð vinsælt að bera slíkan mat fram á öðrum veitingastöðum í bænum enda margir kunnugir þessum mat frá fyrri tíð og sum átthagafélögin tóku upp orðin „þorramatur“ og „þorrablót“ þegar þau auglýstu mótin sín. Þorrann ber líka upp á tíma sem var venjulega fremur dauður í veitingahúsageiranum.[1] Upp úr 1970 var farið að nota orðið „þorrabakki“ þegar rætt var um þorramatinn sem stakan rétt.
Á síðari árum hefur færst í vöxt að á þorrabakkanum séu líka matvæli sem eiga sér langa sögu en eru ekki óalgeng, svo sem harðfiskur, hangikjöt og saltkjöt. Margir veitingastaðir bjóða upp á val milli hefðbundinna súrsaðra og ósúrra þorrabakka. Þorramaturinn hefur þannig þróast með árunum til að taka mið af breytingum á matarsmekk.