Konungsverslunin síðari er tímabil í íslenskri verslunarsögu frá 1774-1787 og síðasta tímabil Einokunarverslunarinnar. Konungsverslunin síðari varð meðal annars vettvangur umbótatilrauna Danakonungs á Íslandi. Verslunin gekk mjög vel til að byrja með, en með lokum Bandaríska frelsisstríðsins og Móðuharðindunum árið 1783 versnaði hagur verslunarinnar hratt og varð algert hrun síðustu ár einokunarinnar.
Konungur keypti öll hlutabréf Almenna Verslunarfélagsins 16. maí 1774. Konungur yfirtók Íslandsverslunina í þeim tilgangi að efla atvinnuvegi landsins og hagnast í leiðinni. Konungsverslunin var í höndum verslunarfélags sem var í eigu konungs en var rekið sem sjálfstætt fyrirtæki. Konungssjóður fjárfesti mikla fjármuni í fyrirtækinu. Ríkjandi efnahagsstefna í Danmörku á þessum tíma síðari hluta 18. aldar var svokallaður kameralismi en í því fólst m.a. meiri ríkisafskipti af atvinnulífi en á tímum kaupauðgisstefnunnar (merkantílismans). Kameralistar voru undir sterkum áhrifum frá búauðgisstefnu og litu svo á að uppspretta auðs væri í framleiðslu en ekki utanríkisviðskiptum.
Heimildir