Kúfskel eða kúskel (fræðiheiti: Arctica islandica) er lindýr og skeldýr sem lifir í sjó í norðanverðu Norður-Atlantshafi í sand- og leirbotni. Kúfskel er grunnsævisdýr og er mestur fjöldi á dýpi sem er 5 m til 50 m en kúfskel hefur einnig fundist í fjöru og alveg niður í 2000 m dýpi.
Vöxtur og þroski
Kúfskeljar verða kynþroska 5 - 6 sm á hæð og 20 - 25 ára gamlar. Kynþroski kúfskeljar virðist fara meira eftir stærð en aldri og fundist hafa kynþroska skeljar við Ísland sem aðeins eru 6 ára gamlar. Hjá flestum skeljum byrja svil og hrogn að þroskast í apríl-maí og eru flestar komnar með fullþroska kynkirtla í ágúst-september. Hrygning fer aðallega fram í október til nóvember.
Vöxtur kúfskeljar er hægur, oftast aðeins brot úr millimetra á ári. Við 50 til 100 ára aldur er skelin orðin 8 til 10 sm að meðaltali.
Lýsing
Kúfskelin er meðal stærstu skelja við Ísland og verður um 11 sm að lengd. Kúfskel er þykk og kúft, nefið snýr fram. Hún er fest saman með leðurkenndri himnu, hjör sem er aftan við nefið. Á ytra borði eru þéttir og óreglulegir vaxtarbaugar. Kúfskel er hvít að innan og stundum með bleikum blæ. Ungar skeljar eru gljáandi og gulbrúnar á lit. Eldri skeljar eru mattar og geta verið gulbrúnar, grábrúnar eða svartbrúnar eftir því hvernig efni er í umhverfi þeirra, skeljar sem lifa í sandi eru ljósari en þær sem lifa í leir.
Lífshættir
Kúfskelin liggur niðurgrafin á sjávarbotni þannig að skelröndin með inn- og útstreymisopunum stendur nokkra millimetra upp úr. Skelin getur þó verið grafin meira niður, alveg niður í 15 til 20 sm og virðist hún geta hætt að anda í nokkra daga.
Fæða kúfskeljar er svifþörungar. Hún dælir sjó í gegnum sig. Fæðan fer inn um innstreymisop, inn undir möttul og út um útstreymisop. Fæðuagnir festast í slími á tálknum skeljanna og berast með bifhárum að munnopinu.
Ýmsir fiskar svo sem ýsa og þorskur lifa á kúfskel, aðallega smáskel en steinbítur getur brotið og étið stórar skeljar.
Langlífi og aldursgreining
Kúfskelin vex mjög hægt og er með langlífustu sjávardýrum. Árið 2006 veiddist kúfskel við Grímsey sem reyndist við aldursgreiningu vera 507 ára og því elsta lifandi skepna sem vitað er um í sögunni.[1]
Kúfskelin bætir við sig einu vaxtarlagi úr kalki á hverju ári. Þessi kalklög endurspegla ástand sjávar á hverju vaxtarári dýrsins og með því að rannsaka árhringina má fá upplýsingar um ástand sjávar, seltu og fæðuframboð. Kúfskel er þannig mælistika á breytingar í hafinu. Árhringirnir sem myndast í skelinni í hjörinni eru m.a. byggðir upp úr súrefni og kolefni. Súrefnið tekur skelin upp úr sjónum eftir því hvað hann er heitur og með því að mæla það er hægt að segja til um hvaða hitastig var í sjónum á hverju ári. Kolefnið er að hluta til geislavirkt og því er hægt að nota það til að aldursgreina skelina.
Þessi tvö frumefni, súrefni og kolefni, og samsetning þeirra segja til um ástandið í sjónum frá ári til árs og auk þess eru vaxtarlögin úr kalki misþykk eftir því hversu hagstæð skilyrðin eru í sjónum.
Hagstæð skilyrði eru við Ísland til að rannsaka kúfskeljar. Kúfskeljar eru mjög algengar í sjónum við Ísland og gjóskulög sem falla á hafsbotninn fyrir norðan Ísland mynda eins konar tímamerki. Með því að tengja saman sögulegar heimildir um eldgos og gjóskulög á hafsbotni er hægt að aldursgreina set á hafsbotni. Til þess að geta aldursgreint dauðar kúfskeljar þarf að þekkja sýndaraldur sjávar.
Kúffiskveiðar og -vinnsla
Kúffiskur er plægður upp úr sjávarbotninum með sérstökum kúfskeljaplógum sem dregnir eru eftir botninum. Kúfskelafli við Ísland var árið 2006 300 tonn. Byrjað var að plægja kúfskel við Ísland skömmu fyrir aldamótin 1900. Aflinn var fyrst eingöngu notaður í beitu. Kúffiskur getur valdið skelfiskofnæmi.
Tilvísanir
Heimildir