Jules Grévy

Jules Grévy
Forseti Frakklands
Í embætti
30. janúar 1879 – 2. desember 1887
ForsætisráðherraJules Dufaure
William Henry Waddington
Charles de Freycinet
Jules Ferry
Léon Gambetta
Charles Duclerc
Armand Fallières
Henri Brisson
René Goblet
Maurice Rouvier
ForveriPatrice de Mac Mahon
EftirmaðurMarie François Sadi Carnot
Persónulegar upplýsingar
Fæddur15. ágúst 1807
Mont-sous-Vaudrey, Frakklandi
Látinn2. desember 1887 (80 ára) Mont-sous-Vaudrey, Frakklandi
StjórnmálaflokkurHófsamir lýðveldissinnar
MakiCoralie Grévy
TrúarbrögðFrumgyðistrú
BörnAlice Wilson
HáskóliParísarháskóli
StarfStjórnmálamaður

François-Judith-Paul Grévy[1] (15. ágúst 1807 – 9. september 1891), yfirleitt kallaður Jules Grévy, var franskur stjórnmálamaður sem var forseti Frakklands frá 30. janúar 1879 til 2. desember 1887. Þar áður hafði hann setið á franska fulltrúaþinginu. Forverar Grévy í forsetaembættinu höfðu verið konungssinnar sem reyndu án árangurs að endurreisa franska konungdæmið og Grévy var því fyrsti forseti Frakklands sem studdi lýðveldið heils hugar.[2][3]

Æviágrip

Jules Grévy fæddist inn í fjölskyldu lýðveldissinna. Hann var lögmenntaður og vann sem lögfræðingur í París. Stjórnmálaferill hann hófst í frönsku byltingunni árið 1848 sem steypti af stóli Loðvík Filippusi Frakkakonungi og varð til stofnunar hins stuttlífa annars franska lýðveldis. Grévy varð hluti af stjórnarskrárnefnd nýja lýðveldisins og mælti gegn því að til yrði forsetaembætti sem kosið yrði um í almennum kosningum þar sem hann vildi ekki að völd lýðveldisins söfnuðust saman í höndum eins leiðtoga. Eftir valdarán Louis-Napoléons Bonaparte forseta árið 1851 var Grévy fangelsaður en síðan sleppt. Hann varð gagnrýnandi Napóleons III á tímum hins endurreista franska keisaraveldis.

Þegar keisaraveldið leið undir lok árið 1870 vegna ósigurs Frakka gegn Prússum í fransk-prússneska stríðinu, sem Grévy hafði mótmælt, steig Grévy aftur inn á svið stjórnmálanna. Í febrúar sama ár var hann kjörinn forseti franska þjóðþingsins. Hann varð síðan forseti fulltrúaþingsins frá 8. mars 1876 og gerðist leiðtogi hófsamra lýðveldissinna eftir dauða Adolphe Thiers árið 1877. Hann bauð sig fram í forsetakosningum árið 1873 en tapaði fyrir Patrice de Mac Mahon.

MacMahon sagði af sér þann 30. janúar 1879 eftir að hafa neitað að skrifa undir uppsögn nokkurra hershöfðingja.[4] Sama dag kaus þingið Jules Grévy sem forseta með 563 atkvæðum. Í ræðu sinni fyrir þinginu[5] tilkynnti Grévy að hann myndi aldrei fara gegn vilja þjóðarinnar og frábað sér rétt forsetans til að leysa upp þing. Í reynd setti túlkun Grévy á forsetaembættinu fordæmi fyrir þingræði í Frakklandi sem eftirmenn hans áttu eftir að fylgja allt fram að stofnun fimmta lýðveldisins árið 1958, sem kom á blöndu af þingræði og forsetaræði. Stjórnarskrárbreytingar voru gerðar í samræmi við þessar hugmyndir, auk annarra viðbóta: Þjóðhátíðardagur Frakklands var settur þann 14. júlí og La Marseillaise gert að þjóðsöngi. Élysée-höllin var formlega gerð að aðsetri þjóðhöfðingjans.

Árið 1887 kom alvarlegt hneykslismál upp í ríkisstjórn Grévy: Tengdasonur forsetans var sakaður um að selja útnefningar til frönsku heiðursorðunnar gegn reiðufé. [6] Grévy neitaði í fyrstu að segja af sér vegna málsins en lét loks til leiðast og lét af forsetaembættinu þann 2. desember. Málið gróf undan trú Frakka á lýðveldinu og jók hættu á valdaráni stuðningsmanna Georges Ernest Boulanger hershöfðingja.[7]

Tilvísanir

  1. Association amicale des secrétaires et anciens secrétaires de la Conférence des avocats à Paris, Bulletin annuel, nr. 5, Paris, Alcan-Lévy, 1883, bls. 277.
  2. „François Paul Jules Grévy is Born“. Masonry Today. 2017.
  3. „Jules Grevy“. World presidents DB. 2017.
  4. Alfred Colling (préf. Marc Desaché), La Prodigieuse histoire de la Bourse, Paris, S.E.F., 1949, In-8°, IX-423 p., pl., couv. ill. (notice BnF no FRBNF32019370). Bls. 294.
  5. Discours de Jules Grévy adressé au Sénat le 06 février 1879, Publications Doc Du Juriste, skoðað 10. janúar 2018.
  6. Colling, bls. 310.
  7. Françoise Taliano-Des Garets, Histoire politique de la France : IIIe, IVe et Ve Républiques, 1870-2010, Paris, Ellipses, coll. « Optimum », 2012, 1 vol. Bls. 30.


Fyrirrennari
Patrice de Mac Mahon
Forseti Frakklands
18791887
Eftirmaður
Marie François Sadi Carnot