Um miðjan fjörðinn að norðanverðu er Grundartangi þar sem rekin er járnblendiverksmiðja og álver. Þar er nú ein stærsta höfn landsins. Gegnt Grundartanga er Maríuhöfn á Hálsnesi sem var ein aðalhöfn landsins á síðmiðöldum. Botnsdalur, í botni Hvalfjarðar, er vinsælt útivistarsvæði og þar er hæsti foss landsins, Glymur. Sunnan við hann er Brynjudalur þar sem einnig er útivistarsvæði. Innarlega í firðinum eru víða leirur og þar er fjölbreytt fuglalíf og mikið um krækling.
Á árunum 1996-1998 voru gerð göng, Hvalfjarðargöngin, undir utanverðan Hvalfjörð og styttu þau hringveginn um eina 55 km þar sem ekki var lengur þörf á að fara fyrir fjörðinn, 62 km leið. Enn er þó hægt að aka fyrir Hvalfjörð eftir þjóðveg 47.
Hernaðarhlutverk Hvalfjarðar
Í síðari heimsstyrjöld gegndi Hvalfjörður mjög mikilvægu hlutverki. Flotastöð bandamanna var innst í Hvalfirði þar sem Hvalstöðin er. Þar var skipalægi og viðkomustaður skipalesta á leið milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna og oft voru mörg skip á firðinum. Bækistöðvar voru reistar í landi Litlasands og Miðsands og þar má enn sjá minjar frá stríðsárunum, meðal annars bragga sem hafa verið gerðir upp.
Hvalveiðar og -vinnsla
Við Þyril var byggð hvalverkunarstöð árið 1948, sú eina á landinu, sem síðar hefur verið í rekstri með hléum.
Sögur og sagnir
Hvalfjörður er sögustaður Harðar sögu og Hólmverja. Innarlega á firðinum er lítil eyja sem heitir Geirshólmi en er oft ranglega kölluð Harðarhólmi. Þar á útlaginn Hörður Grímkelsson að hafa hafst við með fjölmennan flokk en þegar hann og menn hans höfðu verið felldir í landi er sagt að Helga kona Harðar hafi synt í land með syni þeirra tvo. Á Sturlungaöld var aftur flokkur manna í Geirshólma um tíma, þegar Svarthöfði Dufgusson hafðist þar við með flokk manna Sturlu Sighvatssonar og fór ránshendi um sveitirnar.