Hlíðarendi er gata í Reykjavík sem fær nafn sitt af erfðafestubýli sem Jón Kristjánsson prófessor reisti á sama stað árið 1916. Knattspyrnufélagið Valur keypti það árið 1939 og gerði þar Valsvöllinn. Þar voru reist íþróttahús 1958 og annað 1987. Núverandi íþróttahús er frá 2007. Árið 2015 hófust framkvæmdir við nýtt íbúðahverfi á jörðinni. Götur í hverfinu hafa heiti sem öll enda á -hlíð, líkt og annarsstaðar í Hlíðahverfi. Ákveðið var að taka upp nýtt póstnúmer, 102, fyrir þetta hverfi og byggðina í Skerjafirði og við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík.