Hildiríðarsynir voru Hárekur og Hrærekur, synir Hildiríðar Högnadóttur. Frá þeim segir í Egils sögu.
Faðir þeirra var Björgólfur, ríkur maður á Torgum á Hálogalandi, og hafði hann tekið Hildiríði nauðuga úr föðurgarði. Hildiríðarsonum er lýst sem lágvöxnum en fríðum sýnum. Hálfbróðir þeirra samfeðra, miklu eldri, var Brynjólfur sem átti Helgu, dóttur Ketils hængs úr Hrafnistu. Þegar Björgólfur dó rak Brynjólfur Hildiríði og syni hennar á brott og fór hún til föður síns, en synir hennar fengu engan arfshlut eftir föður sínn. Þeir fengu heldur ekkert þegar Brynjólfur dó.
Bárður hvíti hét sonur Brynjólfs og Helgu. Hann var vinur og frændi Þórólfs Kveldúlfssonar, en Hallbera móðir Kveldúlfs var afasystir Helgu. Þeir voru í Hafursfjarðarrorustu í liði Haralds konungs og særðist Bárður þar til ólífis, en áður en hann dó gaf hann Þórólfi arf eftir sig gegn því að hann tæki að sér Sigríði konu sína og ungan son. Þórólfur féllst á þetta og giftust þau Sigríður. Hildiríðarsynir komu þá enn og heimtuðu föðurarf sinn en Þórólfur sinnti því engu. Hildiríðarsynir voru í vinskap við Harald konung og rægðu þeir Þórólf við hann. Fór svo að konungur gerði Þórólfi aðför og felldi hann. Ketill hængur Þorkelsson, dóttursonur Ketils hængs úr Hrafnistu, safnaði þá liði og felldi Hildiríðarsyni, en hélt síðan til Íslands og nam land mili Þjórsár og Markarfljóts.
Tenglar