Hellisey

Hellisey.
Lundaholan í Hellisey

Hellisey er eyja í Vestmannaeyjaklasanum 3 km suður af Brandi, hún er um 0,1 km² og er gíglaga en líkt og í Brandi vantar suður hliðina á gíginn. Hellisey er á náttúruminjaskrá sökum náttúrufegurðar og mikils fuglalífs. Veiðifélag er um nýtingu í eynni og fer Svavar Steingrímsson bjargveiðimaður fyrir félaginu en það leigir eyna af Vestmannaeyjabæ, félagið er aðili að Bjargveiðifélagi Vestmannaeyja. Helstu nytjar í eynni eru eggjataka, lundaveiði og hafsúla þar sem stálpaðir ungar eru teknir. Sauðfé hefur ekki verið haft í eynni síðan 1960. Uppganga er bæði vestan og austan megin og stendur veiðihúsið rétt við uppgönguna að vestan. Eldri uppganga er austanmegin í eynni sem ber heitið Sámur.

Eyjan er að stærstum hlutan þakin grasi en mjög þétt fuglabyggð hefur þó sumsstaðar komið niður á gróðri, þar sem hún er lægst nýtur grass þó ekki við.

Ljóð um eyjuna

Stærri úteyjarnar í Vestmannaeyjaklasanum hafa sín ljóð og vísur Hellisey státar af tveimur slíkum. Annað fjallar um sig í Stórhellum sem þykir erfiðasta sig í Vestmannaeyjum. Sumir vilja meina að Þórður hafi ort hana en aðrir á því að höfundur hennar sé Jón Dynkur.

Hörð eru sig í Háubæli og hættuleg, 
Hábrandinn ei hræðist ég, 
en Hellisey er ógurleg. 

Hin vísan er saminn af þeim Árna Johnsen, Eygló Óskarsdóttur og Sigríði Magnúsdóttur ef marka má Dagbók Helliseyinga 25. júlí 1970 og fjallar um þá Steingrímsbræður, syni Steingríms Benediktsonar skólastjóra í Vestmannaeyjum, en þeir hafa farið fyrir eynni síðan snemma á sjöunda áratugnum.

Einn dag í Hellisey
var drukkið Holu í
var dansað Holu í
var duflað Holu í
Og lundinn brosti breitt
en bergið sagði ei neitt
er Palli fór í Edduskor
og ástin brann þar heitt
En skammt þar frá var Svavar
með svaka lundabing
og Bragi upp við Nafar
með Sirrý, kling, kling, kling
Ég læddist leynistíg
og lét þau eiga sig
og hló og hló
halló, halló, halló

Örnefni

Hellisey, líkt og aðrar eyjar í Vestmannaeyjaklasanum, státar af mörgum örnefnum Hér að neðan er listi yfir nokkur þau helstu úr Örnefnabók Þokels Jóhannessonar

  • 1. Austurflagtir - Súlnabbreiða sunnan við stórhella
  • 2. Bollarnir – 3 bollamyndaðar þúfur á lágeynni
  • 3. Flagaþúfa – þúfa á vesturbrún Helliseyjar
  • 4. Flúðir sker sunnan við Hellisey um 100 metra frá landi
  • 5. Flöt – slétt grasflöt austan við vesturflagtir
  • 6. Göngur – fyrir miðju Vesturbergi
  • 7. Langibekkur – sunnar og neðar en Vesturflagtir
  • 8. Hánef – toppurinn á eynni
  • 9. Hlein – Sunnan við Sámsnef
  • 10. Höfði – suðvestur horn Helliseyjar
  • 11. Klekkir – norðan við Vesturflagtir
  • 12. Lágey – þar sem eyjan er lægst
  • 13. Pollur – Vestan við Hellisey
  • 14. Sámsbæli – súlnabæli milli Sáms og Hánefs
  • 15. Sámsnef - – fremsta hornið á Sámi
  • 16. Sámur – allhár hryggur norður úr eynni vestan við Hánef
  • 17. Sóttarhellir – í miðju bergi norður af Langabekk
  • 18. Steðji – Lending að austan og vestan
  • 19. Stórhellar – austan undir háeynni
  • 20. Súluhellir – norðan við Klekki
  • 21. Tobbasig – vestan í Höfða
  • 22. Þúfa – þúfan á toppnum


Heimildir

  • Aðalskipulag Vestmannaeyja 2002-2014.
  • Gísli Lárusson. Örnefni á Vestmannaeyjum. Örnefnastofnun Íslands, 1914.
  • Þorkell Jóhannesson. Örnefni í Vestmannaeyjum. Hið íslenzka Þjóðvinafélag, 1938.

Tenglar