Þessi grein er um Gísla Jónsson biskup í Skálholti á 16. öld. Á
aðgreiningarsíðunni má finna aðra menn með sama nafni.
Gísli Jónsson (latína: Gilbertus Ionas Islandus) (um 1515 – 3. september 1587) var biskup í Skálholti frá 1558.
Hann var sonur Jóns Gíslasonar prests í Hraungerði og Gaulverjabæ í Flóa og fylgikonu hans, Vilborgar Þórðardóttur. Hann lærði hjá Ögmundi Pálssyni í Skálholti og hélt síðan til Þýskalands. Hann var prestur í Skálholti frá 1538 og var einn af siðaskiptamönnunum þar í tíð Ögmundar. Hann varð prestur í Selárdal í Arnarfirði frá 1546 en hrökklaðist til Danmerkur undan Jóni Arasyni sem bar upp á hann guðlast, uppreisn gegn kirkjulögum og boðun villutrúar. Hann kom þó aftur til Íslands 1551 og fór aftur í Selárdal en var kosinn biskup 1556. Veitingarbréfið er dagsett 28. febrúar 1558.
Gísli reyndi að bæta úr brýnni þörf fyrir sálma í anda lúterstrúar og þýddi talsvert en af vanefnum. Hann gaf út sálmabók 1558 og er aðeins til eitt eintak af henni svo vitað sé. Gísli reyndi að uppræta ýmsar menjar kaþólskunnar og lét meðal annars kljúfa og brenna krossinn helga frá Kaldaðarnesi, sem Gissur Einarsson hafði flutt heim að Skálholti.
Kona hans var Kristín Eyjólfsdóttir (f. um 1515), yngsta dóttir Eyjólfs mókolls Gíslasonar í Haga á Barðaströnd. Árið 1535 eignaðist hún dóttur, Guðrúnu, með Gísla bróður sínum, sem einnig hafði barnað Þórdísi systur þeirra. Gísli flúði úr landi og sneri ekki aftur en systurnar flúðu í Skálholt á náðir Ögmundar biskups sem var frændi þeirra og var engu þeirra refsað fyrir sifjaspellin, enda var Stóridómur ekki settur á laggirnar fyrr en tæpum 30 árum síðar. Svo var látið heita að í báðum tilvikunum hefði verið um nauðgun að ræða. Í Skálholti kynntust þau Kristín og Gísli. Á meðal barna þeirra voru Helga kona Erasmusar Villadtssonar skólameistara í Skálholti og seinast prests á Breiðabólstað í Fljótshlíð, Guðrún kona Gísla Sveinssonar Skálholtsráðsmanns og sýslumanns á Miðfelli, Stefán prestur í Odda, Árni prestur í Holti undir Eyjafjöllum og Vilborg kona Þorvarðar Þórólfssonar á Suður-Reykjum.