Gísli Jónsson (17. ágúst 1889 – 7. október 1970) var íslenskur stjórnmálamaður. Hann var alþingismaður Barðstrendinga 1942–1956 og 1959, alþingismaður Vestfirðinga 1959–1963 fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann var forseti efri deildar Alþingis 1953–1956. Hann átti sæti í Norðurlandaráði 1952–1956 og 1959–1963 og var á síðara tímabilinu formaður Íslandsdeildar ráðsins.[1][2][3]
Gísli stofnaði og rak víða um land mörg fyrirtæki til útgerðar, fiskvinnslu og verslunar, og var sá atvinnurekstur hans mjög stór í sniðum um skeið. Hann átti um tíma miklar eignir á Bíldudal og kom hann á fót verksmiðjunni sem framleiddi Bíldudals grænar baunir og eftir þeirri afurð hefur fjölskylduhátíð á Bíldudal verið nefnd. Gísli var eigandi vélbátsins MS Þormóðs, sem sökk í óveðri árið 1943, svo kallað Þormóðsslys sem leiddi til dauða 31 farþega og áhafnar.[4]