Goðorð var frumstæð stjórnsýslueining innan íslenska þjóðveldisins. Segja má að þau hafi verið bandalag smábænda við goða sinn sem var fulltrúi þeirra og gætti hagsmuna þeirra þar sem dómar voru kveðnir upp, fyrst á héraðsþingum og síðar á Alþingi.
Skipulag
Goðorðin voru framan af mannaforráð en ekki landfræðileg eining og þau áttu sér ekki eiginleg landfræðileg mörk þótt þau tengdust ákveðnum svæðum. Bændum var skylt að fylgja einhverjum goða en þeir voru frjálsir að því að velja sér goða, að minnsta kosti að nafninu til, en ekki virðist hafa verið algengt að menn skiptu um goða þó slíkt hafi mátt. Fylgismenn goðans voru kallaðir þingmenn hans. Goðar áttu líka rétt á að segja menn úr þingi við sig og ráku þá stundum burt úr héraði. Goðinn gat krafist þess að níundi hver bóndi í goðorðinu fylgdi sér til þings. Hann átti að vernda þingmenn sína og reyna að rétta hlut þeirra ef á þeim var brotið en í staðinn áttu þingmennirnir að styðja goðann þegar hann þurfti á að halda.
Goðar
Goðarnir eða goðorðsmennirnir voru helstu höfðingjar landsins og höfðu í heiðni líklega það hlutverk að stýra blótum en urðu síðar eingöngu veraldlegir höfðingjar. Goðorðin voru persónuleg eign hvers goða, þau gengu í arf og voru stundum gefin eða seld. Þeim mátti líka skipta og sumir áttu aðeins hlut úr goðorði. Með tímanum, einkum er kom fram á 13. öld, söfnuðust goðorðin á hendur fárra manna, sem urðu héraðs- eða landshlutahöfðingjar.
Við stofnun Alþingis árið 930 voru þrjú þing í hverjum landsfjórðungi og í hverri þinghá (umdæmi) voru þrjú goðorð, svo að goðorðin voru 36 alls, en fljótlega var bætt við þremur goðorðum í stærsta og fjölmennasta fjórðungnum, Norðlendingafjórðungi, svo að þau voru alls 39.
Smátt og smátt urðu goðorðin þó í raun landfræðilegar einingar, goðar fóru að heimta skatt af þingmönnum sínum og goðorðin urðu að ýmsu leyti eins og lén í öðrum löndum. Þau lögðust af þegar Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd og má segja að sýslumenn séu arftakar goðanna og sýslur arftakar goðorðanna.
Heimildir
- Lúðvík Ingvarsson: Goðorð og goðorðsmenn 1–3, Egilsstöðum 1986.
Tenglar