Franska útlendingaherdeildin (franska: Légion étrangère) er deild í Frakklandsher sem var stofnuð 10. mars árið 1831 fyrir erlenda ríkisborgara sem vildu ganga í franska herinn. Herdeildin er sú eina sem tekur við umsóknum frá erlendum ríkisborgurum. Yfirmenn herdeildarinnar eru þó flestir franskir. Hún tekur við hermönnum samkvæmt uppgefnu nafni og ríkisfangi og hefur því gjarnan verið leið fyrir menn sem vilja hefja nýtt líf af ýmsum ástæðum. Eftir þriggja ára herþjónustu geta hermennirnir sótt um franskan ríkisborgararétt. Útlendingaherdeildin er sérþjálfað léttvopnað fótgöngulið.
Franska útlendingaherdeildin var upphaflega stofnuð fyrir vandræðamenn af ýmsum toga eins og fyrrum byltingarsinna og málaliða úr hersveitum Búrbóna af ýmsu þjóðerni. Herdeildin var staðsett í Alsír og var lengst af hluti af Franska Afríkuhernum. Hún hefur tekið þátt í öllum styrjöldum Frakklands frá stofnun.