Farsímakerfi eru fjarskiptakerfi, sem gera notkun farsíma mögulega. Til viðbótar við hefðbundna símaþjónustu geta sum farsímakerfi boðið upp á allhraða nettenginu með t.d. EDGE eða UMTS-tækni.
Högun farsímakerfa
Algengustu farsímakerfi heimsins (GSM, NMT, UMTS, AMPS og fl.) byggja á sömu grunnhönnun varðandi dreifingu merkis, þ.e. sellu-högun.
Sellu-högun gengur út að skipta landsvæði þar sem bjóða á farsímaþjónustu niður í litla bletti, eða sellur. Ein sella er það svæði sem eitt loftnet farsímasendisins á að þjóna. Þessi framkvæmd (að búta landsvæði niður í sellur) er kallað „cell planning“ (sjá hér aftar). Úr hverju loftneti farsímasendis er send ein útsenditíðni, en hún er frábrugðin útsenditíðnum annarra sella í næsta nágrenni. Þessi tíðni er aðalútsenditíðni sellunnar, en símarnir eru að leita eftir þessari útsenditíðni til að geta tengt sig við farsímakerfið. Til viðbótar þessari aðalútsenditíðni hverrar sellu er einnig hægt að senda fleiri útsenditíðnir, en þær tíðnir eru til að hægt sé setja upp fleiri símtöl á sellunni. Séu ekki nógu margar útsenditíðnir á einhverri sellu verður frávísun, þ.e. þegar reynt er að hringja hafnar sellan símtalinu af því að allar rásir eru uppteknar. Þegar þetta gerist kemur á skjá flestra símtækja tilkynningin „network busy“.
„Cell Planning“ er það að velja staði fyrir farsímasenda, gerð loftneta, sendistyrk frá loftnetum, stillingar á loftnetum og fleira í þeim dúr.
Farsímasendar innihalda eina eða fleiri sellur, oftast eina til þrjár, þar sem hver sella er sá landblettur sem eitt loftnet þjónar. Hægt er að fá loftnet af fjölmörgum gerðum og með mismunandi eiginleika svo sem hvað farsímamerkið er mikið magnað, hve breiður merkis-geislinn er, hve hár geislinn er o.fl. Þá eru loftnetin oftast stillt þannig að þau vísa niður en þannig er takmarkað hve langt merkið frá þeim er að berast, en í farsímakerfum er mikilvægt að merki einstakra sella sé ekki að vaða út um allt, það veldur truflunum á merki annarra sella.
„Cell Planning“ er afskaplega margslungin vinna. GSM merkið verður að vera gott innan allrar sellunnar, en GSM þjónusta skerðist ekki aðeins vegna daufs merkis heldur einnig vegna þess að útsenditíðnir annarra sella valda truflunum á merkinu.
Þá er peningalega mikilvægt að ekki séu settir upp fleiri farsímasendar en þarf til að þjóna ákveðnu landsvæði, en kostnaður við hvern farsímasendi er mikill.
„Cell Planning“ er unnin í sérstökum hugbúnaði þar sem landakort sem innihalda upplýsingar um yfirborð lands (gróið land, hraun, sandar og svo framv.) ásamt hæðarbreytingum og mannvirkjum eru notuð til að spá fyrir um útbreiðslu merkis frá ákveðnum stað. Þessi kort eru mjög nákvæm í borgarumhverfi, en þá er búið að færa inn á þessi landakort allar byggingar, hæð þeirra og lögun.
„Tems“, „Cellular expert“ og „Atoll“ eru dæmi um „Cell planning“ hugbúnað.
Eftirlit með gæðum farsímakerfa
Í grófum dráttum er eftirlit með gæðum farsímakerfa framkvæmt á tvo vegu. Annars vegar er kerfið mælt með sérstökum mælisímum. Þá er ekið er vítt og breitt um farsímaþjónustusvæðið og bæði styrkur og gæði farsímamerkisins mæld á sjálfvirkan hátt. Niðurstaðan er svo vistuð í sérstökum skrám. GPS tækni heldur utan um hvar hver einstök mæling var gerð en mælingarnar geta skipt tugum þúsunda í hverri mælingaferð. Síðan getur sérfræðingur greint þessar skrár og séð hvernig farsímakerfið er að standa sig á hverjum stað.
Hin leiðin til að hafa eftirlit með gæðum farsímakerfa er með greiningu tölfræði, en í farsímakerfum er fylgst með öllu því helsta sem gerist með teljurum. Teljarar þessir eru í raun bara mælingar, þeir eru látnir hækka þegar eitthvað gerist, t.d. þegar einhver hringir, einhver svarar, símtal slitnar og svo framv. Í þróaðri farsímakerfum, t.d. GSM og UMTS eru þessir teljarar mörg hundruð þúsund og mæla svo til allt sem gerist í kerfinu. Niðurstöður þessara mælinga (þ.e. staðan á teljurunum) er svo keyrð í gagnagrunna, en til að vinna tölfræðina eru notuð sérstakur greiningarhugbúnaður, en nokkuð framboð er af sérhæfðum hugbúnaði til að greina tölfræði. Dæmi um slíkan hugbúnað er „Business objects“ og „Cognos“.
Tengt efni
Tenglar
- Sérhæfður hugbúnaður og tæki
- „Cell planning“
- Loftnet
- Tölfræðigreining