Erlendur Þorvarðarson (d. 1575) var íslenskur lögmaður á 16. öld og bjó á Kolbeinsstöðum og Strönd í Selvogi.
Erlendur var sonur Þorvarðar Erlendssonar lögmanns og Margrétar Jónsdóttur, systur Stefáns biskups. Hann var í þjónustu Stefáns móðurbróður síns á yngri árum og á þeim tíma (árið 1518) vó hann mág sinn, Orm Einarsson bónda í Saurbæ á Kjalarnesi, í Viðey. Ekki kom það í veg fyri að hann var kjörinn lögmaður sunnan og austan á Alþingi 1521. Ekki virðist hann hafa fengið staðfestingu konungs fyrr en 1538 en gegndi þó lögmannsembætti allan tímann.
Erlendur studdi siðaskiptin þegar þau urðu í Skálholtsbiskupsdæmi en virðist þó hafa verið eitthvað blendinn í trúnni og þótti Gissuri biskupi illt að treysta á hann. Honum er lýst svo að hann hafi verið yfirgangs- og ofstopamaður, hættulegur vinur og skæður mótstöðumaður. Hann þótti harður í horn að taka og duglegur að berja á útlendingum sem hér voru við veiðar og verslun í óþökk Danakonungs.
Árið 1553 missti hann lögsögnina og aleigu sína fyrir ýmsar misgjörðir og sumar alvarlegar, meðal annars manndráp. Hann fór þá til Kaupmannahafnar og tókst árið 1558 að fá útgefið konungsbréf þar sem honum voru gefnar upp sakir og fékk hann hluta eigna sinna aftur. Hann lifði lengi eftir þetta en við litla virðingu.
Erlendur var þríkvæntur og átti líka launbörn. Fyrsta kona hans var Þórunn Sturludóttir frá Staðarfelli, systir Orms lögmanns Sturlusonar. Hún dó þegar þau bjuggu á Kolbeinsstöðum og fóru á kreik sögur um dauða hennar.
Heimildir