„Dimmuborgir“ getur einnig átt við hljómsveitina Dimmu Borgir.
Dimmuborgir eru einstæðar hraunmyndanir við austanvert Mývatn. Mikill fjöldi ferðamanna heimsækir Dimmuborgir á ári hverju.
Myndun Dimmuborga
Hraunið sem rann þegar Dimmuborgir mynduðust kom frá eldgosi í Lúdentsborgum og Þrengslaborgum fyrir um 2000 árum og er það mesta hraungos sem orðið hefur á Mývatnssvæðinu eftir ísöld. Dimmuborgir eru staðsettar í lægð og er talið að þegar þær mynduðust hafi hraun frá fyrrnefndu gosi streymt í þessa lægð og smám saman fyllt hana af bráðnu hrauni. Á meðan á þessu stóð tók yfirborð hraunsins að storkna og sumstaðar storknaði það til botns og myndaði þá hraunstólpa sem fólk sér þegar það gengur um svæðið í dag. Storkið hraunið myndaði nokkurskonar þak ofan á bráðinni kvikunni en á endanum braust hraunið fram og tæmdist undan þakinu. Við þetta veiktist þakið svo að það hrundi niður og eftir varð það einstæða landslag sem flestir þekkja í dag sem Dimmuborgir.
Þekktar hraunmyndanir
Sumar hraunmyndanir í Dimmuborgum eru þekktari en aðrar. Þeirra þekktust er tvímælalaust Kirkjan, hraunhvelfing sem opin er í báða enda og heitir svo vegna þess að lögun hennar minnir á kirkju.