Davíð Stefánsson (1973)

Sjá aðgreiningarsíðuna fyrir aðra sem hafa borið þetta nafn.

Davíð Hörgdal Stefánsson (fæddur 14. október 1973) er íslenskt skáld. Hann hefur gefið út þrjár ljóðabækur sem allar komu út hjá sjálfsútgáfuforlaginu Nykur sem Andri Snær Magnason stofnaði ásamt fleirum árið 1995. Árið 2008 gaf hann út kennslubókina Tvískinnu, sem fjallar um tungumál og táknfræði í samhengi hversdagsmáls og hefur verið notuð í kennslu í grunnskólum, framhaldsskólum og háskólum, og árið 2014 gaf hann út smásagnasafnið Hlýtt og satt. Hann er einn af stofnendum ljóðavefjarins ljóð.is þar sem skráðir notendur geta gefið út ljóð. Vefurinn opnaði árið 2001 og árið 2003 kom út safnritið 101.ljod.is með úrvali ljóða af vefnum.

Auk eigin ritstarfa hefur Davíð skrifað námsbækur um íslensku, sköpun og menningu fyrir Menntamálastofnun (áður Námsgagnastofnun), ritstýrt bókum fyrir aðra og þýtt sænsku verðlaunabókina Hvert andartak enn á lífi (2018) eftir Tom Malmquist.

Frá árinu 2009 hefur Davíð haldið námskeið í skapandi skrifum fyrir alla aldurshópa, hin síðari ár undir merkjum Sköpunarskólans.

Félagsstörf

Davíð var einn af þeim sem stóðu fyrir opnum borgarafundum í kjölfar Bankahrunsins á Íslandi haustið 2008. Davíð er fyrrum félagi í VG og varaþingmaður. Hann tók þátt í forvali VG í Reykjavík fyrir þingkosningarnar 2009 og sat í fimmta sæti á framboðslistanum í Reykjavíkurkjördæmi-norður. Auk þess að hafa tekið sæti á Alþingi sem varaþingmaður gegndi hann um tíma formennsku í Reykjavíkurfélagi Vinstri grænna.

Áður hafði Davíð setið í miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga. Hann hefur setið í stjórn Rithöfundasambands Íslands með hléum frá árinu 2006 og sinnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir sambandið.

Ritverk

  • Hvert andartak enn á lífi (þýðing – 2018)
  • Hlýtt og satt (smásögur – 2014)
  • Logar (kennslubók – 2015) (ásamt Sigrúnu Valdimarsdóttur og Ýr Þórðardóttur)
  • Neistar (kennslubók – 2014) (ásamt Sigrúnu Valdimarsdóttur)
  • Kveikjur (kennslubók – 2013) (ásamt Sigrúnu Valdimarsdóttur)
  • Skilaboð móttekin : fræðslukver um fjölmiðla og auglýsingar (kennslubók – 2012)
  • Tvískinna (kennslubók – 2008)
  • Uppstyttur (ljóð – 2003)
  • Kveddu mig (ljóð – 1999)
  • Orð sem sigra heiminn (ljóð – 1996)

Tenglar