Copa de la España Libre eða Spænski frelsisbikarinn var spænsk knattspyrnukeppni sem haldin var í júní og júlímánuði á yfirráðasvæði lýðveldissinna árið 1937 þegar keppni í La Liga og Copa del Rey féll niður vegna spænsku borgarastyrjaldarinnar.
Saga
Fyrr á árinu 1937 höfðu knattspyrnufélög á svæðum lýðveldissinna skipulagt sína eigin deildarkeppni, Miðjarðarhafsdeildina (spænska: Liga Mediterránea), sem lauk með sigri FC Barcelona. Til stóð að fjögur efstu liðin í þeirri keppni ettu kappi í frelsisbikarnum, en Barcelona kaus þess í stað að halda í fjáröflunarkeppnisferð til Mexíkó.
Fjögur lið mættu til leiks: Levante FC, FC Valencia, Espanyol og Girona FC. Leikin var í einum riðli með tvöfaldri umferð, þar sem Levante og Valencia höfnuðu í tveimur efstu sætunum. Þau mættust í úrslitaleik sem lauk með 1:0 sigri Levante.
Stuðningsmenn Levante hafa alla tíð gert kröfu til þess að Spænska knattspyrnusambandið viðurkenni félagið sem sigurvegara í Copa del Rey fyrir árið 1937. Sú barátta hefur enn ekki skilað árangri.