Central Español Fútbol Club er úrúgvæsktknattspyrnulið frá Montevídeó, stofnað þann 5. janúar árið 1905. Það er í hópi sögufrægari knattspyrnuliða landsins og vann árið 1984 einn óvæntasta meistaratitil í sögu úrúgvæska boltans og þótt víðar væri leitað. Í seinni tíð hefur félagið leikið í næstefstu deild.
Saga
Central Fútbol Club var stofnsett í ársbyrjun 1905 með sameiningu tveggja knattspyrnuliða í Palermo-hverfinu í Montevideo, Central og Solís. Var ákveðið að efna til kappleiks milli gömlu liðanna tveggja og skyldu sigurvegararnir fá nafn nýja félagsins. Lauk leiknum með 2:0 sigri Central. Félagið hóf keppni í úrúgvæsku deildinni árið 1909 og lék þar næstu árin án þess að gera raunveruleka atlögu að meistaratitlinum.
Þegar klofningur varð í úrúgvæsku knattspyrnunni árið 1922 skipaði Central sér í sveit með Peñarol sem stofnaði sína eigin deild og tefldi meira að segja fram óháðu úrúgvæsku landsliði, alfarið skipuðu leikmönnum frá félögunum tveimur. Að lokum náðust þó sættir og voru deildirnar sameinaðar á nýjan leik.
Atvinnumennska var tekin upp í úrúgvæsku knattspyrnunni árið 1932 og tók Central þátt í þeirri þróun. Atvinnumennskan varð þó til þess að stórliðin tvö í úrúgvæska boltanum náðu algjörri drottnunarstöðu og deildu þau með sér öllum meistaratitlum frá 1932 til 1976.
Deildaflakk og nafnbreyting
Eftir langa dvöl í efstu deild féll Central niður í aðra deild árið 1953 og mátti dúsa þar til ársins 1970 ef undan er skilið eitt ár. Árið 1971 var nafni félagsins breytt í Central Español Fútbol Club á grunni samkomulags við stofnun spænska ríkisins (Instituto Español de Emigración) sem hafði það hlutverk að greiða fyrir flutningi Spánverja til annarra landa, en ætlunin var að félagið skyldi þjóna sérstaklega spænskum nýbúum í Úrúgvæ.
Eftir nokkurra ára fallbaráttu, mátti Central Español þola fall á ný árið 1973 og við tók alllöng dvöl í næstefstu deild.
Magnaður meistaratitill
Eftir langa bið komst Central Español loksins aftur upp í efstu deild árið 1983. Öllum að óvörum tókst liðinu að verða meistari á sínu fyrsta ári þar og er það eitt fárra dæma í knattspyrnusögunni um að nýliðar hafi unnið slíkt afrek.
Félagið hefur aldrei farið nærri því að endurtaka þetta afrek, hæst náð þriðja sæti og frá aldamótum varið lengstum tíma í næstefstu deild. Stuðningsmennirnir ylja sér þó við þennan eina meistaratitil frá 1984, sem er meira en mörg þrautreynd lið í landinu geta státað af.