Brimnes í Seyðisfirði var 12-hundraða jörð að dýrleika að fornu mati. Það var ein af tilleggs eða stiftisjörðunum, sem séra Eiríkur Sölvason hafði í umboði fyrir hönd Skálholtsbiskups á þessum árum [þ.e. á byrjun 18. aldar]... Jörðin var byggð með tveimur kúgildum, landskuldin, 1-hundr. á landsvísu árlega, lagt til styrktar þjónandi presti Eiðasóknar. Á þessari leigujörð bjó Jón Ketilsson allan sinn langa búskapartíma á Seyðisfirði, en það var fremur fátítt á þessari öld, að menn sætu svo lengi að búi á leigujörðum.[2]
Jón Ketilsson hreppstjóri (1654-1732) lést þegar snjóflóð hljóp á Brimnes um nóttina 25. janúar 1732. Alls dóu 9 manns í snjóflóðinu en 9 komust af. Var þetta eitt mannskæðasta snjóflóð sem vitað er um á Íslandi enda það tók baðstofuna að nóttu til þegar allir voru þar inni sofandi.