Bifreið eða bíll er vélknúinn fararskjóti. Langoftast er hann fjögurra hjóla vagn sem knúinn er með fjórgengisbrunahreyfli. Þar sem brunahreyflar tóku við af hestvögnum, þá er mælieiningin á kraft þeirra mæld í svonefndum hestöflum. Þó þekkist einnig að kraftur bíla sé mældur í vöttum.
Upphaf fjöldaframleiðslu bifreiða er rakið til framleiðslu hinna þýskuBenz Patent-Motorwagen árið 1885. Hófst þá mikil samkeppni um framþróun bíla. Árið 1900 nam heildarfjöldi bíla í heiminum minna en 500, en hálfri öld síðar voru þeir nær 81 milljón.[1] Fram til 1908 var tíðni bílferða og hestaferða jafnhá, en með tilkomu Ford Motel T fjölgaði bílum ört.
Áætlað var 2010 að fjöldi bíla í heiminum væru fleiri en einn milljarður, en þeir voru 500 milljónir 1986.[2] Mikil aukning er í fjölda bíla og þá sérstaklega í Kína og Indlandi. Algengasta gerð bifreiða er með fjórgengisbensínhreyfli. Ennfremur hefur færst í aukana að bílar séu knúnir rafhreyflum.
Fjöldi sæta í bílum er misjafn en flestir bílar eru fimm sæta. Skiptast í framsæti og aftursæti.
Orðsifjar
Orðið bíll er stytting á franska orðinu automobile, sem er samsett úr forngríska orðinu αὐτός (autós, „sjálf/sjálfur“) og því franska mobile („hreyfa“ sem kemur úr latínumobilis („hreyfanlegur“)).
Orðið bifreið kom nokkuð snemma inn í íslensku eða rétt eftir að bílar fóru að sjást á Íslandi. En ekki voru allir samþykkir þeirri nafngift í upphafi. Þrír alþingismenn, þeir Jón Ólafsson, Bjarni Jónsson frá Vogi og Matthías Ólafsson, lögðu fram tillögu sem fól í sér að hafna orðinu bifreið en taka þess í stað upp orðið sjálfrenningur. Tillagan var samþykkt. Ýmsar fleiri hugmyndir komu fram, til dæmis lagði Vigfús Guðmundsson til í Ísafold9. júlí1913 að kalla bifreiðar þeysivagna eða þeysa; í samsettum orðum vöruþeysir, fólksþeysir og svo framvegis. Önnur nöfn sem fram komu á þessum árum voru til dæmis sjálfhreyfivél, sjálfrennireið (sem enn er stundum höfð um bíl í gamansömum tón), skellireið og rennireið.
Saga
Fyrsti gufuknúni bílinn var byggður af Ferdinand Verbiest, flæmingja árið 1672. Bílinn var 65 sentimetra langt líkan fyrir kínverska keisarann.[3][4][5]
Ekki er vitað hvort að líkanið hafi einhverntímann verið byggt í fullri stærð.[4]
Nocolas-Joseph Cugnot er oftast nefndur sem sá sem bjó til fyrsta farartækið í fullri stærð. 1769 bjó hann til gufuknúið þríhjól.[6] Hann bjó einnig til tvo gufuknúna traktora fyrir franska herinn. Öðrum þeirra er viðhaldið á franska safninu French National Conservatory of Arts and Crafts.[7] Uppfinningar hans héldu þó gufuþrýstingi illa og erfitt var að fá nægt vatn fyrir farartækin.[7]
1807 þróuðu Nicéphore Niépce og bróðir hans Claude fyrsta sprengihreyfilinn. Þeir ákváðu að nota vélina í bát á ánni Saône í Frakklandi.[8]
Brunahreyfill, betur þekktur sem vél, dregur loft um blöndung, þar sem hann seytlar eldsneyti í brunahol og skrokk vélarinnar. Vélin þjappar blöndunni saman og glæðir hana með rafneista. Aðalhluti vélarinnar er skrokkstykkið, en það geymir hringlaga göt sem nefnast strokkar. Í hverjum strokki er bulla (einnig þekkt sem stimpill), en hólfið þar fyrir ofan nefnist brunahol. Neðan í skrokkstykkið er festur ás sem nefnist sveifarás, en hann heldur höfuðlegunum. Sveifarásinn og bullan eru tengd saman með stöng sem er kölluð sambandsstöng. Efri legan grípur utan um bolta, sem gengur í gegnum bulluna. Boltinn er kallaður bulluvölur, en legan bulluvalarlega. Þegar sveifarásnum er snúið ganga stimplarnir upp og niður í strokknum eftir snúningsstöðu sveifanna.[10]
Skoðanir Tryggva Gunnarssonar og Halldórs Laxness á bílum
Ég var staddur í Kaupmannahöfn árið 1901; þá var nýbyrjað að brúka þar mótorvagna; voru þá öll blöð full af skrípamyndum af vagnferðum þessum, og sýnd á þeim höfuð, fætur og mannabúkar liggjandi sem hráviði meðfram vegunum, og átti þetta að vera af fólki, sem slys hafði beðið af vögnum þessum. En svo kom það fyrir, að Englandskonungur kom til Danmerkur á sama tíma, og á meðan hann dvaldist þar, keyrði hann á mótorvagni fram og aftur um landið; var þá hans vegna hætt að gera gys að vagnferðum þessum, og menn fóru að hagnýta sér þá. [11]
Bifreiðar sem þá komu voru víst einhver gargön frá upphafi, fluttar híngað útásaðar frá Kanada og stóðu fastar hér, einkum og sérílagi á þjóðbrautum. Menn geingu afturábak að ýta þessum farartækjum upp brekkur en þau ultu ofan brekkurnar jafnóðum samkvæmt þýngdarlögmálinu. Samt dáðust allir að bifreiðum og byrjuðu að trúa á þær. [...] Hjá mörgum komu þær í staðinn fyrir Írafellsmóra og sauðskepnuna og brennivínið. [..] Þótti mikið snjallræði á sunnudögum að aka bíl úr Reykjavík alt hvað aftók austurá Þingvöll, 50 kílómetra, að kaupa sér flösku af ropvatni.
Orð höfð um bíla (eftir ásigkomulagi þeirra)
bensínhákur - haft um bíla sem eyða miklu.
bílskrjóður - illa farin (oft gamall) bíll.
bíltík - ódýr bíltegund og/eða illa farin.
blikkbelja - haft í hálfkæringi um bíl.
dollaragrín - stór bandarískur bíll, engin sérstök tegund. Orðið er úr ensku: dollar grin; grill bílsins minnti á glott og í ensku er dollar grin haft um vissa tegund af Buick.
drossía - stór og virðulegur bíll, oftast haft um bandarískar tegundir.
drusla - lélegur bíll.
gírajór - haft í hálfkæringi um bíl.
kaggi - samskonar orð og drossía, þó kagginn sé öllu svalari.