Þvottabjörn (Procyon lotor) er tegund spendýra innan ættkvíslarinnar Procyon.
Lífshættir, útbreiðsla og nytjar
Þvottabirnir eru stærstir allra hálfbjarna; skrokklengd fullvaxins dýrs er 40-70 cm og þyngdin frá 3,5-9 kíló. Þvottabjörninn er yfirleitt næturdýr. Hann er alæta, étur jurtir og aldin, orma, skordýr, ýmis smádýr, fugla og fiska, og þegar hann tekur sér bólfestu nálægt mannabústöðum sækir hann oft í sorp og úrgang til að leita sér matar.
Þvottabjörninn er upprunninn í Norður-Ameríku og náttúruleg heimkynni hans þar eru í laufskógum og á mörkum barr- og laufskógabelta en aðlögunarhæfni hans er mikil og hann hefur einnig tekið sér bólfestu í fjallendi, við strendur og í bæjum og borgum. Fyrir og um miðja 20. öld voru þvottabirnir fluttir til Evrópu, Kákasuslanda og Japan, þar sem þeim var ýmist sleppt viljandi eða þeir sluppu úr haldi og náðu útbreiðslu.
Þvottabirnir hafa lengi verið veiddir vegna feldsins, sem hefur verið notaður í yfirhafnir og húfur. Reynt var að rækta þvottabirni á loðdýrabúum á fyrri hluta 20. aldar en það þótti ekki svara kostnaði. Þvottabjörnum fjölgaði mjög í Bandaríkjunum um miðja öldina og jukust veiðarnar þá að sama skapi. Met var sett veturinn 1976-1977, þegar 5,2 milljónir dýra voru veidd. Síðan hefur dregið mjög úr eftirspurn eftir loðfeldum og hefur veiddum dýrum þá fækkað að sama skapi.
Ræningi með grímu
,,Gríma” þvottabjarnarins hæfir vel atferli hans. Hann getur klifrað, grafið og opnað dyr og lása með liprum fingrum og laumast iðulega inn í hús þar sem búfé er geymt. Hann strýkur oft óhreinindin af fæðu áður en hann étur hana, eða skolar af henni ef vatn er nálægt.
Þvottabirnir á Íslandi
Ársæll Árnason flutti sjö þvottabirni til Íslands í september 1932 og fór eitt par til Vestmannaeyja en hin dýrin voru höfð í kjallara og garði á Sólvallagötu 33 í Reykjavík[1] fyrst í stað en síðan í loðdýrabúi nálægt Vífilsstöðum. Þaðan slapp eitt ungt dýr og lifði villt nokkra mánuði en var svo skotið í hænsnabúi á Kjalarnesi. Þvottabirnir munu hafa verið í íslenskum búum í að minnsta kosti áratug; vorið 1941 eru 10 þvottabirnir taldir meðal búpenings landsmanna.[2]
Árið 1975 voru þrír þvottabirnir fluttir í Sædýrasafnið í Hafnarfirði.
Þvottabirnir hafa svo flækst til Ísland með gámaskipum, t.d. frá Kanada.
Tilvísanir
- ↑ Sunnudagsblað Tímans, 3. júní 1962.
- ↑ Tíminn, 20. ágúst 1943.
Heimildir
Tenglar