Þulur eru ein gerð íslenskra þjóðkvæða, fleiri en sjö línur að lengd og ekki erindaskipt, sem hefur verið hluti af munnlegri hefð að minnsta kosti síðan á 15. öld. Merking orðsins „þula" hefur breyst í gegnum tíðina og virðist það fyrst hafa átt sérstaklega við kvæði sem tengdust nafnarunum eða annari upptalningu. Á 18. öld tíðkuðust svokallaðar langlokur sem voru langir rímaðir bragir þar sem ekki var skilið á milli erinda. Í seinni tíð hafa þulurnar orðið að barnagælum. [1]
Höfundar þulna eru yfirleitt óþekktir. Þó hafa ýmis seinni tíma skáld tekið ástfóstri við þuluformið og var ljóðskáldið Theodóra Thoroddsen (1863-1954) frá Kvennabrekku í Dölum þeirra langþekktust.
Þjóðlög við íslenskar þulur
Þulur voru yfirleitt mæltar fram eða raulaðar fyrr á öldum fyrir börn með einföldum laglínum.[2] Mörg þessara þjóðlaga hafa varðveist og þekkjast enn vel í dag. Þá útsetti tónskáldið Jórunn Viðar margar þessar laglínur og gaf út á prenti á ofanverðri 20. öld.