Þráinn Sigurðsson

Þráinn Sigurðsson (23. ágúst 191125. mars 1986) var klæðskeri, knattspyrnuþjálfari og formaður Knattspyrnufélagsins Fram.

Ævi og störf

Þráinn fæddist í Hafnarfirði og ólst þar upp. Að klæðskeranámi loknu fluttist hann til Reykjavíkur og gekk til liðs við Knattspyrnufélagið Fram. Hann lék knattspyrnu með meistaraflokki félagsins í áratug, lengst af sem markvörður. Utan vallar lét hann einnig til sín taka og gegndi formannsembættinu árin 1943-46 og aftur 1947-48. Árin 1943 og 1945 sá Þráinn jafnframt um þjálfun meistaraflokksins, en það verkefni fylgdi oft formennskunni.

Formannsár Þráins voru á miklum uppgangtíma hjá Frömurum. Félagið varð Íslandsmeistari í knattspyrnu árið 1946 og stóð sama sumar að því að bjóða danska landsliðinu til Íslands í samvinnu við Knattspyrnuráð Reykjavíkur. Var það fyrsti landsleikur Íslands sem sjálfstæðs ríkis.

Árið 1945 urðu Framarar fyrsta knattspyrnuliðið í Reykjavík til að eignast eigin knattspyrnuvöll þegar ruddur var malarvöllur á nýju félagssvæði Fram fyrir neðan Stýrimannaskólann. (KR og Valur eignuðust bæði félagssvæði á undan Frömurum, en voru ekki búin að koma upp völlum.) Árið eftir reistu Framarar sér félagsheimili í Skipholtinu sem varð heimili félagsins uns Fram flutti á nýtt félagssvæði í Safamýri árið 1972.

Þráinn kvæntist Guðnýju Þórðardóttur sumarið 1936. Guðný æfði handknattleik með Ármanni, sem hafði á að skipa langsterkasta kvennahandknattleiksliði landsins. Árið 1945 hafði Þráinn forgöngu um að Framarar kæmu sér upp kvennaliði í handbolta og að konur gætu gerst félagar í Fram. Ýmsir höfðu efasemdir um ágæti hugmyndarinnar, en fljótlega kom í ljós að kvennadeildin varð félaginu mikil lyftistöng. Ekki leið á löngu uns Framstúlkur komust í fremstu röð í handboltanum. Til að koma liðinu yfir fyrsta hjallann tók Guðný fram handboltaskóna á ný og lék með Frömurum fyrstu misserin.

Haustið 1950 fluttustu þau hjónin búferlum til Bandaríkjanna og lauk þar að mestu afskiptum Þráins Sigurðssonar af Knattspyrnufélaginu Fram.

Fyrirrennari:
Ólafur Halldórsson
Formaður Knattspyrnufélagsins Fram
(19431946)
Eftirmaður:
Guðmundur Halldórsson



Fyrirrennari:
Guðmundur Halldórsson
Formaður Knattspyrnufélagsins Fram
(19471948)
Eftirmaður:
Jón Þórðarson