Þorsteinn Sveinbjörnsson Egilson (5. janúar 1842 – 20. október 1911) var kaupmaður og sparisjóðsstjóri í Hafnarfirði. Þorsteinn var sonur Sveinbjarnar Egilssonar rektors og Helgu Benediktsdóttur, dóttur Benedikts Gröndal eldri. Hann fæddist á Eyvindarstöðum á Álftanesi.
Þorsteinn kvæntist Arndísi Ásgeirsdóttur þann 23. mars árið 1862 en þau skildu. Með henni átti hann Sveinbjörn Ásgeir Egilson, ritstjóra, og Jón Árnason Egilson. Þorsteinn kvæntist síðar Elísabetu Þórarinsdóttur, dóttur Þórarins Böðvarssonar rithöfundar, alþingismanns og prests í Görðum á Áltanesi. Synir þeirra voru Þórarinn Böðvar Egilson, útgerðarmaður í Hafnarfirði, Gunnar Þorsteinsson Egilson, skipamiðlari í Reykjavík, og Egill Egilson. Eftir andlát Elísabetar kvæntist Þorsteinn Rannveigu Steinunni Hansdóttur Sívertsen.
Þorsteinn hóf nám við Reykjavíkurskóla árið 1854 og lauk stúdentsprófi þaðan árið 1860. Hann lauk cand. theol.-prófi frá prestaskóla árið 1862 en vígðist aldrei sem prestur. Hann starfaði sem kaupmaður í Reykjavík og síðar Hafnarfirði og stofnaði þar sparisjóð.
Þorsteinn fékkst aðeins við ritstörf og samdi meðal annars leikritin Prestskosningin og Útsvarið.