Þorleifur Einarsson (29. ágúst 1931 – 22. mars 1999) var íslenskur jarðfræðingur. Hann fæddist í Reykjavík en lést í Bergisch Gladbach í Þýskalandi. Foreldrar hans voru hjónin Einar Runólfsson verkamaður, f. 1886 í Skálmabæjarhrauni í Álftaveri, d. 1962 í Reykjavík, og Kristín Þorleifsdóttir, f. 1900 í Stykkishólmi, d. 1973 í Reykjavík.
Námsferill
Eftir nám í gagnfræðaskóla settist Þorleifur í MR og lauk þaðan prófi vorið 1952. Að því loknu hélt hann til jarðfræðináms við Háskólann í Hamborg, Þýskalandi, haustið 1953. Hann hélt síðan áfram jarðfræðinámi við háskólana í Erlangen-Nürnberg 1954 – 1956 og Köln 1956 – 1960, þaðan sem hann lauk Dipl.Geol.-prófi í maí og Dr.rer.nat.-prófi í júlí 1960. Þorleifur stundaði framhaldsnám og rannsóknir við háskólann í Bergen í Noregi 1960 – 1961 og háskólann í Cambrigde, Englandi 1970 og 1979.
Starfsferill
Að loknu doktorsprófi kom hann heim og starfaði sem sérfræðingur í jarðfræði, fyrst á iðnaðardeild atvinnudeildar Háskólans 1961 – 1965, síðar á Rannsóknarstofnun iðnaðarins 1965 – 1968 og á Raunvísindastofnun Háskóla Íslands 1969 – 1975. Jafnframt var hann stundakennari í náttúrufræði og eðlisfræði við Vogaskóla í Reykjavík 1961 – 1963, í jarðfræði við Menntaskólann í Reykjavík 1963 – 1969, við Tækniskóla Íslands 1965 – 1970 og við jarðfræðiskor Háskóla Íslands 1969 – 1974. Þorleifur var skipaður prófessor í jarðsögu og ísaldarjarðfræði við jarðfræðiskor Háskóla Íslands 1975 þar sem hann starfaði síðan. Hann var skorarformaður jarðfræðiskorar 1979 – 1981, jarð- og landfræðiskorar 1989 – 1991 og deildarforseti Verkfræði- og Raunvísindadeildar 1983 – 1985.
Félagsstörf og íþróttir
Þorleifur var varamaður í Náttúruverndarráði 1972 – 1978, sat í stjórn Hins íslenska náttúrufræðifélags frá 1964 og var formaður þess 1966 – 1972, sat í stjórn Jarðfræðafélags Íslands 1966 – 1968 og var formaður þess 1972 – 1974, sat í stjórn Norrænu eldfjallastöðvarinnar 1980 – 1997, var formaður stjórnar Máls og menningar 1979 – 1991, sat í stjórn Landverndar frá 1971 og var formaður Landverndar 1979 – 1990. Þá var Þorleifur kjörinn félagi í Vísindafélagi Íslendinga 1962, Alexander von Humboldt-styrkþegi í Vestur-þýskalandi 1959 – 1960 og Overseas Fellow í Churhill College í Cambrigde, Englandi frá 1970. Þorleifur var einnig virkur félagi í Skógræktarfélagi Íslands, Sögufélaginu og Jöklarannsóknarfélaginu.
Hann tók um árabil þátt í starfi íþróttahreyfingarinnar og þá einkum handbolta. Hann var leikmaður með ÍR, var atvinnumaður í Þýskalandi, landsliðsmaður, þjálfari og sat í dómaranefnd HSÍ.
Rannsóknarstörf
Þorleifur stundaði margþættar rannsóknir í jarðfræði og liggur eftir hann fjöldi greina og bóka um jarðfræðileg efni og umhverfisvernd á ýmsum tungumálum auk íslensku. Fyrsta bókin var Jarðfræði Íslands, saga bergs og lands sem kom út fyrir jólin 1968 og varð metsölubók þau jól, seldist hún samtals í um 22.000 eintökum. Bækur hans um Gosið í Surtsey og Gosið á Heimaey voru þýddar á fjölda erlendra tungumála og fóru víða. Síðasta bókin sem hann lauk við var Myndun og mótun lands. Jarðfræði sem kom út 1991 og var þýdd bæði á ensku og þýsku. Einnig flutti hann fjölda fyrirlestra um jarðfræðileg efni á ráðstefnum og fundum hérlendis, á alþjóðaráðstefnum og við fjölmarga háskóla erlendis.
Í doktorsrannsóknum sínum rannsakaði Þorleifur hraunin á Hellisheiði og uppruna þeirra. Hann vann umtalsverðar rannsóknir á gróðurfari með frjókornagreiningum sem tengdust öðru hugðarefni Þorleifs, fornleifarannsóknum. Hann sinnti þó lengst af rannsóknum í ísaldarjarðfræði. Meðal hans þekktustu kenninga er kenningin um Bering landbrúna.
Einkahagir
Árið 1959 kvæntist Þorleifur Steinunni Dórótheu Ólafsdóttur, hjúkrunarfræðingi, en þau skildu síðar.
Börn þeirra eru:
- Ásta, jarðfræðingur,´Reykjavík f. 15. maí 1960
- Einar Ólafur, náttúrufræðingur, Reykjavík, f. 9. ágúst 1963
- Kristín, landslagsarkitekt, f. 9. október 1964
- Björk, sagnfræðingur, f. 29. apríl 1974
Sambýliskona Þorleifs var Gudrun Bauer lyfjatæknir, f. 27. janúar 1935.