Þang er íslenskt heiti yfir stóra brúnþörunga sem vaxa í fjörum og tilheyra þangættinni (fucaceae). Þangtegundir eiga það sameiginlegt að þær eru festar við botninn með skífulaga festu, upp af henni er kvíslgreind planta, sem ýmist er blaðlaga með miðstreng eða þykk og sporöskjulaga í þverskurði.[1]
Þang setur jafnan mestan svip á fjörur á stöðum þar sem brim er ekki mikið. Lítið fer fyrir því á mjög brimsömum stöðum, sandfjörum eða leirum vegna þess að stórþörungar þurfa fast undirlag, svo sem grjót eða klappir og eitthvert skjól fyrir stórbrimi.[2]
Margar tegundir þangs hafa verið nýttar sem áburður, fóður, eldsneyti og í iðnaði. Þang var notað til framleiðslu sóda í byrjun 17. aldar, sem var notaður bæði í sápugerð og til glergerðar. Síðar var það notað til joðframleiðslu, þar til mikil eftirspurn hófst eftir gúmmíefnum úr þörungum sem farið var að nota í matvælaiðnaði. Eins og úr þara og öðrum brúnþörungum, er gúmmíefnið algín unnið úr þangi.[1]
Tegundir við Ísland
Við Ísland vaxa sex þangtegundir sem tilheyra þremur mismunandi ættkvíslum[1]:
- Fucus
- Pelvetia
- Ascophyllum
Tilvísanir
- ↑ 1,0 1,1 1,2 Karl Gunnarsson, Gunnar Jónsson og Ólafur Karvel Pálsson (1998). Sjávarnytjar við Ísland. Reykjavík: Mál og menning.
- ↑ Guðmundur Páll Ólafsson (1995). Ströndin - í náttúru Íslands. Reykjavík: Mál og menning.