Örn Arnarson (skáld)

Örn Arnarson (dulnefni Magnúsar Stefánssonar) (12. desember 1884 – 25. júlí 1942) var íslenskt skáld og rithöfundur. Hann er þekktastur fyrir ljóðabók sína Illgresi sem kom út árið 1924. Þekktustu ljóð hans eru til dæmis: Þá var ég ungur, Stjáni blái og Íslands Hrafnistumenn, en það ljóð varð síðan innblásturinn að nafni Hrafnistu, dvalarheimili aldraðra sjómanna.[1]

Magnús Stefánsson fæddist að Kverkártungu á Langanesströnd í Norður-Múlasýslu. Þar bjuggu foreldrar hans Ingveldur Sigurðardóttir og Stefán Árnason. Áður en Magnús fæddist höfðu þau hjónin eignast sex börn, fimm dætur og einn son sem dó á fyrsta ári.

Á harðindaárunum eftir 1880 svarf svo að þeim að þau brugðu búi vorið 1887 og réðust vinnuhjú að Miðfirði. Dætrum sínum komu þau fyrir víðsvegar en höfðu Magnús með sér. Litlu seinna, 25. maí, drukknaði Stefán í Miðfjarðará og tæpu ári síðar gerðist Ingveldur vinnukona á Þorvaldsstöðum í sömu sveit. Magnús er þá rúmlega tveggja ára og elst nú upp á Þorvaldsstöðum. Þar vandist hann alls konar sveitastörfum, meðal annars sjósókn en þótti latur til vinnu og lélegt mannsefni eins og hann lýsir í kvæðinu Þá var ég ungur:

Verki skyldu valda
veikar barnahendur.
Annir kölluðu að.
Hugurinn kaus að halda
heim á draumalendur,
gleymdi stund og stað.
„Nóg er letin, áhuginn er enginn“.
Ungir og gamlir tóku í sama strenginn,
allir nema móðir mín,
því mildin þín
þekkti dreymna drenginn.

Þegar Magnús var orðinn tvítugur tók hann að leita sér skólamenntunar. Áður hafði hann notið nokkurrar kennslu, fyrst hjá heimafólki, en síðar hjá farkennara á Langanesströnd Guðmundi Hjaltasyni, að minnsta kosti veturinn 1898 – 99. Magnús sótti síðar unglingaskóla sem haldinn var á Grund í Eyjafirði veturinn 1906 – 07 og stundaði síðan nám við Flensborgarskóla í Hafnarfirði veturinn 1907 – 08, en þaðan lauk hann gagnfræðaprófi. Kennaraprófi lauk hann frá Kennaraskólanum þar sem hann var við nám veturinn 1908 – 09.

Veturinn 1909 – 10 starfaði Magnús sem kennari í átthögum sínum, en fékkst aldrei við kennslu eftir það.

Hann flyst nú til Vestmannaeyja og vinnur hjá kaupfélaginu Herjólfi um tíma en fer svo að vinna sem skrifari hjá Karli J. Einarssyni sýslumanni og gegndi því starfi til haustsins 1918. Nokkur sumur stundaði hann þó síldarvinnu á Siglufirði og Akureyri.

Þegar Magnús lét af sýsluskriftunum, fluttist hann til Hafnarfjarðar og átti þar heima lengstum síðan. Fékkst hann þá einkum við afgreiðslu og skrifstofustörf, en hvarf oft að einhvers konar útivinnu á sumrin eins og til dæmis síldar- og vegavinnu. Hann kom nokkuð að sögu íþróttamála í Hafnarfirði og var formaður Knattspyrnufélagsins Framtíðarinnar.

Hann birti fyrstu ljóð sín í Eimreiðinni árið 1920 undir dulnefninu Örn Arnarson og hélt því upp frá því. Fjórum árum síðar gaf hann út sína frægustu bók, Illgresi.

Árið 1935 kenndi hann snögglega hjartabilunar og var lítt vinnufær eftir það. Það kom sér því vel að hann fékk skáldastyrk árið 1936 sem hann hélt síðan. Síðustu árin varð hann að halda kyrru fyrir að mestu og lá löngum rúmfastur. Hann andaðist 25. júlí 1942 í St. Jósefsspítala í Hafnarfirði.

Magnús kvæntist aldrei og dó barnlaus.

Tilvísanir

Tenglar