VísindaSlamm

VísindaSlamm er keppni í vísindamiðlun þar sem ungt vísindafólk fær tækifæri til að kynna rannsóknarverkefni sín á sviði.

Aðalmarkmiðið með miðluninni er því ekki að segja frá niðurstöðum rannsókna hvers og eins heldur fremur að skýra frá eðli og áhrifum rannsóknanna á lifandi máta og hvernig keppendur nálgast og miðla viðfangsefnu í sínum kynningum[1].

VísindaSlamm fer þannig fram að hver keppandi fær tíu mínútur á sviði til að miðla rannsóknarefni sem keppandi ástundar. Við miðlunina er keppanda frjálst að nýta leikmuni, búninga og annan búnað til að styðja við sína vísindamiðlun og víkja frá hefðbundnari miðlunarformum innan vísindasamfélagsins sem eru glærur með töflum og gröfum.

Eftir að allir keppendur hafa lokið sínum kynningum fá áhorfendur að kjósa um sigurvegara.

Útgáfur af VísindaSlammi og VísindaSlamm á Íslandi

Allar fræðigreinar vísindanna eru gjaldgengar í VísindaSlammi og yfirleitt er hver viðburður opinn fyrir öll vísindi. Þó eru til útgáfur erlendis af VísindaSlammi þar sem sérstakur fókus er settur á ákveðnar fræðigreinar líkt og verkfræði, heilbrigðisvísindi eða félagsfræði[2].

VísindaSlamm á Íslandi var fyrst haldið árið 2022 á Stúdentakjallaranum. Það er Rannsóknamiðstöð Íslands (Rannís) sem heldur utan um VísindaSlamm á Íslandi undir merkjum Vísindavöku Rannís.[3]

Tilvísanir

  1. „VísindaSlamm“. Vísindavaka. Sótt 4 október 2023.
  2. „Science Slam - Bühne frei für die Wissenschaft! Alle Infos im Überblick“. scienceslam.de (þýska). Sótt 4 október 2023.
  3. „VísindaSlamm (ScienceSlam) í Stúdentakjallaranum“. Rannsóknamiðstöð Íslands. Sótt 4 október 2023.

Tenglar