Vörumerki er merki eða tákn sem gerir neytendum kleift að aðgreina vörur og þjónustu eins aðila frá vörum eða þjónustu annars aðila. Vörumerki þjóna mikilvægu hlutverki við markaðssetningu og eru oft ein verðmætasta eign fyrirtækja. Vörumerkjavernd fæst með skráningu eða notkun vörumerkis, en vörumerkjaskráning gildir í 10 ár í senn og er hægt að endurnýja hana eins oft og eigandi merkisins óskar. Vörumerkjaréttur er landsbundinn, en hægt er að sækja um alþjóðlega skráningu vörumerkja á grundvelli íslenskrar vörumerkjaumsóknar eða skráningar (sbr. Bókunar við Madridsamninginn, eða svonefnds Madrid-skráningarkerfis).
Vörumerki á Íslandi þurfa að uppfylla tiltekin skilyrði vörumerkjalaga nr. 45/1997, til að fást skráð. Þau geta ekki verið almenns eðlis eða lýsandi fyrir þá vöru eða þjónustu sem þau eiga að auðkenna. Þá má ekki skrá vörumerki sem eru eins eða lík vörumerkjum sem þegar eru skráð fyrir svipaða vöru eða þjónustu. Hugverkastofan skráir vörumerki á Íslandi.