Svínafell

Svínafell er bær í Öræfum (Öræfasveit), gamalt stórbýli og höfðingjasetur. Svínfellingar, ein helsta höfðingjaætt Sturlungaaldar, voru kenndir við Svínafell.

Svínafell var í landnámi Þorgerðar, ekkju Ásbjörns Heyangur-Bjarnarsonar, sem dó í hafi á leið til Íslands, og sona þeirra. Einn þeirra hét Össur, sonur hans var Þórður freysgoði og hans sonur Flosi Þórðarson (Brennu-Flosi), sem bjó á Svínafelli um árið 1000. Afkomandi bróður Flosa, Sigmundur Þorgilsson goðorðsmaður á Svínafelli, sem dó í Rómarför 1118, var talinn með helstu höfðingjum landsins og voru Svínfellingar afkomendur hans. Síðastur þeirra var Ormur Ormsson á Svínafelli, sem fékk ásamt Hrafni Oddssyni forráð yfir öllu Íslandi 1270 en náði ekki að njóta þeirra því að hann drukknaði við Noregsstrendur sama ár. Árni Þorláksson biskup fæddist í Svínafelli 1237. Kirkja var á bænum til forna.

Svínafell hefur verið í eigu og ábúð sömu ættar frá 1783. Þar er nú rekinn blandaður búskapur og ferðaþjónusta. Þar er sundlaug sem kallast Flosalaug og er hún kynt með hita frá sorpbrennsluofni sem gengur undir nafninu Brennu-Flosi. Mjög veðursælt er í Svínafelli eins og í Skaftafelli en sviptivindar geta verið mjög snarpir og hafa oft valdið tjóni.

Svínafellsjökull er kenndur við bæinn.