Suður-Ameríkukeppni karla í knattspyrnu 1942 var 17. Suður-Ameríkukeppnin í knattspyrnu og var haldin í Montevídeó í Úrúgvæ dagana 10. janúar til 7. febrúar. Sjö lið kepptu á mótinu og mættust í einfaldri umferð. Heimamenn urðu meistarar í áttunda sinn.
Argentínumenn unnu 12:0 sigur á Ekvador sem enn í dag er stærsti sigur í sögu keppninnar. José Manuel Moreno skoraði fimm mörk í leiknum og var eitt þeirra það 500asta frá því að keppnin hófst.
Nágrannaþjóðirnar Úrúgvæ og Argentína voru báðar með fullt hús stiga þegar þær mættust í hreinum úrslitaleik í lokin. Bibiano Zapirain skoraði eina mark leiksins fyrir heimaliðið.