Sprengigos

Mount St. Helens árið 1980

Sprengigos er eldgos sem lýsir sér í því að eldstöð gýs nær eingöngu gosgufum og gjósku sem þeytast upp úr gígnum. Vikur og annað frauðgrýti verður til við sprengigos. Þeytigos eru sprengigos sem verða þegar heit kvika kemst í snertingu við vatn.

Sprengigos stafa aðallega af skyndilegri losun reikulla efna, einkum vatns, úr kvikunni við lágan þrýsting. Ágætt samanburðardæmi úr daglega lífinu er þegar tappi er tekinn af gosflösku, en þá losnar koltvíildi (CO2) úr vatnslausninni og hún freyðir. Sé flaskan hrist gerist þetta ennþá hraðar og mikill þrýstingur myndast, því 500-faldur rúmmálsmunur er á CO2 í vatnslausn og CO2 sem gasi: 1 millilítri í lausn verður hálfur lítri af gasi. Bergbráð djúpt í jörðu getur innihaldið allt frá 0,5% upp í 4-5% af vatni í lausn, en þegar bráðin rís og þrýstingurinn lækkar (tappinn tekinn af flöskunni) losnar vatnið úr bráðinni og hún freyðir. Þarna verður rúmmálsmunurinn milli vatns í lausn og sem gufu ennþá meiri vegna hitaþenslunnar eða um 5000-faldur. Þess vegna skiptir það miklu hve hratt bráðin rís upp gosrásina. Rísi bráðin hægt losnar vatnið rólega úr henni og sleppur út í andrúmsloftið en hraunkvikan rennur sína leið eftir yfirborði jarðar (hraungos). Rísi hún hratt verður ferlið með hraða sprengingar og hraunslettur og gufa þeytast hátt í loft upp (sprengigos).

Askja gaus árið 1875 geigvænlegu sprengigosi.

Heimildir

  Þessi jarðfræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.