Foreldrar hans voru Þórdís Súrsdóttir og Þorgrímur Þorsteinsson. Helstu heimildirnar um líf Snorra goða eru Íslendingasögurnar, einkum Eyrbyggja saga þar sem hann er aðalpersónan en hann kemur einnig fyrir í Laxdæla sögu, Brennu-Njáls sögu, Heiðarvíga sögu og Landnámabók. Í 15. kafla Eyrbyggja sögu er útliti Snorra lýst á þennan veg: "[hann] var meðalmaður á hæð og heldur grannlegur, fríður sýnum, réttleitur og ljóslitaður, bleikhár og rauðskeggjaður."[1] Á meðan hann lifði var hann talinn vitur maður sem veitti vinum sínum góð ráð en klækti á óvinum.[1] Snorri var kallaður goði vegna þess að hann hélt hof á bæ sínum, Helgafelli.
Upphaflega var Snorri nefndur Þorgrímur eftir föður sínum sem var veginn af mági sínum, Gísla Súrssyni, stuttu áður en Snorri fæddist. Eftir vígið giftist Þórdís, móðir Snorra, bróður Þorgríms, Berki hinum digra, og bjuggu þau að Helgafelli á Þórsnesi. Var Snorri þá sendur í fóstur til Þorbrands Þorfinnssonar í Álftafirði. Vegna slæmrar hegðunar í æsku var hann ávalt kallaður Snerrir og síðar Snorri og hélst það nafn. Þegar Snorri var 14 vetra héldu hann og fóstbræður hans, Þorleifur og Þóroddur, í verslunarferð til Noregs og fékk Snorri til þess fimm tugi silfurs frá Berki, föðurbróðir sínum. Sumarið eftir að Snorri kom til baka frá Noregi krafðist hann arfs frá frænda sínum Berki en hann vildi ekki skipta Helgafelli og krafði Snorra um sex tugi silfurs fyrir alla jörðina. Þar sem Snorri hafði grætt á ferðinni gat hann greitt fyrir bæinn en vegna fátæklegs fatnaðar Snorra bjóst Börkur við því að hann hefði glatað öllu fé sínu í Noregi. Börkur neyddist þannig að selja frænda sínum Helgafell og gerði Snorri bú þar, en hann var þá 16 vetra gamall.[2]
Snorri giftist Ásdísi Styrsdóttur eftir að hann hjálpaði föður hennar að ráða örlögum tveggja sænskra berserkja, Halla og Leiknis, sem ollið höfðu vandræðum á heimili Styrs. Í viðauka við Eyrbyggja sögu er sagt að Snorri hafi átt 19 frjálsborin börn sem komust til manns og að þau Ásdís hafi átt saman fjóra syni, þá Þórð kausa, Þórodd, Þorstein og Guðlaug munk. Þar að auki er sagt að Snorri hafi átt tvær dætur með Þuríði Illugadóttur og 14 börn með Hallfríði Einarsdóttur, en þær Þuríður og Hallfríður koma hvergi fyrir í sögunni sjálfri og í henni kemur heldur ekkert fram um dauða Ásdísar Styrsdóttur.[2]
Samkvæmt sama viðauka bjó Snorri að Helgafelli í 31 ár, en þá brá hann búi og fluttist til Sælingsdalstungu í Dölum og bjó þar til æviloka. Hann var grafinn í kirkjugarðinum í Sælingsdalstungu, en hann lét sjálfur reisa kirkjuna.[2]
Landnámabók segir Halldór, son Snorra, ættföður Sturlunga í gegnum Þorkötlu dóttur sína, en Sturlungar fóru með Snorrungagoðorð sem kennt var við afkomendur Snorra goða.[3]