Sniglabandið

Sniglabandið er íslensk hljómsveit, sem var stofnuð árið 1985 og hefur starfað nær óslitið síðan.

Sniglabandið var upphaflega nátengt Bifhjólasamtökum lýðveldisins, Sniglum. Eftir því sem árin liðu fór hljómsveitin að feta sína eigin slóð og lúta sínum eigin lögmálum.

Sniglabandið er einkum þekkt fyrir fjölhæfni sína og létta lund. Þeir taka sig ekki of hátíðlega og hafa húmorinn ávallt innan seilingar.

Sniglabandið hefur í gegnum tíðina leikið á ótal dansleikjum og tónleikum, giftingum, jarðarförum, söngkeppnum, sjónvarpsþáttum og flestum þeim stöðum sem tónlist er leikin.

Liðsskipan

  • Björgvin Ploder sem syngur og leikur á trommur
  • Einar Rúnarsson sem leikur á orgel og syngur
  • Friðþjófur Ísfeld Sigurðsson sem leikur á bassa
  • Pálmi Jósef Sigurhjartarson sem leikur á píanó og syngur
  • Skúli Gautason sem syngur og leikur á kassagítar og ásláttarhljóðfæri
  • Þorgils Björgvinsson sem leikur á rafgítar og syngur

Upphafleg liðskipan

Skúli Gautason, söngur og gítar, Sigurður Kristinsson, trommur, Bjarni Bragi Kjartansson, bassi og Ólafur Unnar Jóhannson, söngur

Fljótlega urðu mannaskipti; Ólafur hætti en Stefán Hilmarsson gerðist söngvari bandsins, Björgvin Ploder settist við trommusettið en Sigurður tók sér rafgítar í hönd. Einar Rúnarsson orgelleikari bættist við. Þannig skipað lék Sniglabandið á áramótadansleik á Þórshöfn á Langanesi á gamlárskvöld 1985. 1987 hættu þeir Stefán og Sigurður, en Baldvin Ringsted tók við rafgítarleik. Sigurður kom þó inn aftur árið 1989 þegar hljómsveitin fór í fræga för til Sovétríkjanna sálugu. Eftir heimkomuna hætti Bjarni Bragi, en Friðþjófur Sigurðsson tók við bassanum. Baldvin hætti 1990 og var Þorgils Björgvinsson ráðinn rafgítarleikari hljómsveitarinnar og hefur verið það æ síðan. Pálmi Sigurhjartarson settist við píanóið 1992.

Um miðjan tíunda áratug 20. aldar tóku þeir Friðþjófur og Skúli sér hlé frá störfum til að fara á drykkjumannahæli. Í hléinu reyndu flestir af fremstu bassaleikurum þjóðarinnar fyrir sér í bassaleikarastöðunni, en entust illa. Þar má nefna Tómas M. Tómasson, Jakob Smára Magnússon, Þórð Högnason, Harald Þorsteinsson og Eið Arnarson. Hljómsveitin var komin í sitt fyrra horf uppúr aldamótum og þannig hefur hljómsveitin starfað þannig síðan.

Útvarpsþættir

Sniglabandið er ekki síst þekkt fyrir útvarpsþætti sína. Meginefni þáttanna er að hljómsveitin leikur óskalög fyrir hlustendur sem hringja inn í þáttinn. Hljómsveitin hefur haft fyrir reglu að neita ekki að spila lög þó hún þekki viðkomandi lag ef til vill ekki til hlítar. Þættirnir voru fyrst reglulega á dagskrá á Aðalstöðinni frá 1992, en síðan á Rás 2, þar sem þeir hafa verið öðru hvoru síðan. Á seinni árum hafa þættirnir verið sendir út með áhorfendum í sal, enda þykja þættirnir ekki síður hafa sjónrænt skemmtigildi en hljóðrænt. Sniglabandið tók upp á því að bjóða síðasta hlustandanum sem hringdi inn í hverjum þætti að velja sér uppskrift að lagi sem hljómsveitin samdi síðan fyrir næsta þátt. Hlustandinn átti þannig að segja um hvað lagið átti að vera og fyrstu orðin í viðlaginu. Sumir báðu um sérstakan tónlistarstíl. Nokkur þessara laga hafa náð miklum vinsældum, s.s. Britney og Selfoss er. Brot úr útvarpsþáttunum og frumsömdu óskalögin hafa komið út á plötum, m.a. Rúvtops og Vestur.

Hljómplötur

  • Fjöllin falla í hauga (1986)
  • Áfram veginn með meindýr í maganum (1987)
  • Til hvers þarf maður konur (1988)
  • Himpi gimpi gella (1990)
  • ?rativfláhgosnieðitálikkeðivmuteG (Getum við ekki látið eins og hálfvitar?) (1992)
  • Þetta stóra svarta (1993)
  • Sniglabandið 1985 – 1995 (1995)
  • Gull á móti sól (1995)
  • Eyjólfur hressist (1996)
  • Ágúst kemur klukkan tvö (1997)
  • Rúvtops (2006)
  • Vestur (2007)
  • Kúpverjinn (2009)
  • Sófasjómaðurinn (2009)
  • Jól meiri jól (2009)
  • 25 (2010)
  • Töfrar (2010)
  • Öll þessi ár (2013)
  • Íslenskar sálarrannsóknir (2015)
  • Klukkurnar í Notre Dame (2016)
  • Elskaðu heiminn (2019)
  • Haltu kjafti (2020)

Safnplötur

  • Jólastund (1987)
  • Já, takk (1994)

Tenglar

  Þessi tónlistargrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.